Landhelgisgæslan tekur þátt í umfangsmikilli flugslysaæfingu

Landhelgisgæslan tók í dag þátt í einni stærstu flugslysaæfingu sem haldin hefur verið hér á landi. Æfingin var haldin á Keflavíkurflugvelli og tóku þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-SYN og flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF þátt í æfingunni ásamt starfsmönnum Landhelgisgæslunnar í Keflavík og starfsmönnum á aðgerðasviði og í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar. Auk þess lagði Landhelgisgæslan til flugskýli á starfssvæði Landhelgisgæslunnar á Öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Yfir 500 þátttakendur úr ýmsum áttum tóku þátt í æfingunni, svo sem lögregla, slökkvilið, björgunarsveitir og fleiri en æfingin var skipulögð af Isavia og almannavörnum.

Æfingin er liður í að æfa stjórnun og samhæfingu viðbragðsaðila og samskipti þeirra á milli. Þá er jafnframt farið yfir þau atriði sem betur mega fara til að viðbragsaðilar séu sem best viðbúnir.

Á æfingunni var líkt eftir því að þota með 150 farþega tilkynn­ir um hita í hreyfli og brotlendir að lokum utan brautar. Reynt var að gera vettvanginn eins raunverulegan og kostur var og meðal annars kveikt í bíl­flök­um til að herma eft­ir flug­véla­skrokki og skurðir grafn­ir til að láta líta út eins og vélin hefði brotlent og dreg­ist eft­ir jörðinni.

Hlutverk þyrlu og flugvélar Landhelgisgæslunnar í æfingunni var að flytja slasaða á sjúkrahús. Þá önnuðust starfsmenn Landhelgisgæslunnar öryggisgæslu og umsýslu á söfnunarsvæði slasaðra sem er í flugskýli Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli. Síðastliðna mánuði hefur Landhelgisgæslan í samstarfi við Isavia verið að útbúa aðstöðu í flugskýlinu fyrir söfnunarsvæði slasaðra og þá aðila sem koma að málum verði slys á flugvellinum.

Æfingin gekk vel og voru þátttakendur afar sáttir að henni lokinni.

 
Þyrla Landhelgisgæslunnar tilbúin til að flytja slasaða á sjúkrahús.
 
Flugvél Landhelgisgæslunnar, sem er afar vel útbúin til sjúkraflutninga, var nýtt til að flytja slasaða.
 
Úr flugskýli Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli þar sem komið hefur verið upp aðstöðu og skipulagi til móttöku slasaðra.
 
Nóg pláss er í flugskýli Landhelgisgæslunnar þannig að viðbragðsaðilar geta auðveldlega athafnað sig.