Landhelgisgæslan tekur þátt í umfangsmikilli mengunarvarnaræfingu

Varðskipið Þór og sjómælingabáturinn Baldur tóku nýverið þátt í umfangsmikilli mengunarvarnaræfingu. Æfingin var verkleg og byggir á aðgerðaráætlun Landhelgisgæslu Íslands, Umhverfisstofnunar og Samgöngustofu frá september 2015 um viðbrögð við bráðamengun utan hafna og notkun skipaafdrepa. Auk Landhelgisgæslunnar tóku aðilar frá Umhverfisstofnun, Olíudreifingu og Samgöngustofu þátt í æfingunni.

Við æfinguna var meðal annars notast við 300 metra mengunarvarnargirðingu varðskipsins Þórs. Þá voru dælur frá Landhelgisgæslunni og Umhverfisstofnun nýttar í æfingunni. Þar á meðal var svokallaður „Skimmer“ sem er í varðskipinu Þór en það er olíuhreinsibúnaður sem notaður er til að ná upp mengaðri olíu úr sjó. Einnig var notast við svokallað „Foxtail“ sem er í eigu Umhverfisstofnunar sem einnig hreinsar upp olíu.

Æfingin fór fram norðvestur af Keilisnesi. Sett var út mengunarvarnargirðing Þórs og var sjómælingabáturinn Baldur nýttur sem dráttarbátur og dró hann út girðinguna. Þegar girðingin hafði verið dregin út og Þór og Baldur voru komnir á lokastefnu var hafist handa við að dæla „olíu“ úr sjó. Að lokinni æfingu var girðingin síðan dregin inn aftur.

Þátttakendur voru sammála um að æfingin hefði gengið mjög vel og verið gagnleg fyrir alla en nauðsynlegt er að æfa viðbrögð við mengun með reglubundnum hætti og um leið reyna á þann búnað sem til staðar er til að bregðast við, verði stórt mengunarslys hér við land.

 
Sjómælingabáturinn Baldur dregur út mengunarvarnargirðingu varðskipsins Þórs.
 
Skimmer búnaður varðskipsins Þórs sem er olíuhreinsibúnaður sem notaður er til að ná upp mengaðri olíu úr sjó.
 
Svokallað Foxtail í eigu Umhverfisstofnunar sett í sjó en búnaðurinn er nýttur til olíuhreinsunar.
 
Skimmer búnaður varðskipsins Þórs kominn í sjó.