Landhelgisgæslan vísaði norsku línuskipi til hafnar
Var á veiðum innan bannsvæðis
15.04.2023 Kl: 20:41
Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar urðu varir við að norskt línuskip væri á veiðum innan bannsvæðis í fiskveiðilögsögunni í fyrrinótt. Þetta var unnt að sjá í fjareftirlitskerfi Landhelgisgæslunnar.
Varðstjórarnir höfðu þegar í stað samband við vakthafandi skipstjórnarmann sem viðurkenndi að skipið væri á veiðum. Áhöfninni var gert ljóst að hún væri innan bannsvæðis þar sem ekki væri leyfilegt að stunda veiðar.
Skipinu var vísað til hafnar. Fiskiskipið kom til Reykjavíkur í nótt og fóru liðsmenn séraðgerðasveitar Landhelgisgæslunnar, lögreglumenn og fulltrúar Fiskistofu um borð í skipið í morgun. Rætt var við áhöfn skipsins auk þess sem farið yfir afladagbók og veiðarfæri.
Norska skipið hélt frá Reykjavík að vettvangsrannsókn lokinni. Lögregla annast rannsókn málsins í samvinnu við Landhelgisgæsluna.