Leitað að rjúpnaskyttu fyrir austan
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst í gærkvöld beiðni frá lögreglu um aðstoð þyrlu vegna leitar að rjúpnaskyttu fyrir austan. TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar fór á vettvang og með henni fóru tveir leitarmenn ásamt leitarhundum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.
Leitaði þyrlan eins og aðstæður buðu en skyggni á vettvangi var slæmt og þurfti því að hætta leit rétt eftir klukkan eitt í nótt. Ekki er unnt að notast við miðunarbúnað vegna farsíma þar sem vitað er að rjúpnaskyttan er ekki með farsíma meðferðis.
Þyrlan og áhöfn hennar beið átekta á Egilsstöðum í nótt og verður leit framhaldið með þyrlu um leið og veðuraðstæður leyfa.
Meðfylgjandi myndir tók áhöfnin á TF-LIF af þyrlunni á Egilsstöðum.
Veðuraðstæður til leitar á vettvangi eru ekki góðar sem stendur. |
TF-LIF og áhöfn hennar er í viðbragðsstöðu á Egilsstöðum. |