LHG fær að gjöf hjartahnoðtæki í þyrlurnar

Bergþór Ingibergsson og Kiwanisklúbburinn Eldborg styrktu kaupin á tækinu

Sekúndurnar skipta oftar en ekki höfuðmáli um borð í þyrlum Landhelgisgæslunnar og því er afar áríðandi að áhafnirnar hafi aðgang að besta fáanlega útbúnaði til að hlúa þar að slösuðum eða sjúkum. Fyrir skemmstu fékk Landhelgisgæslan afhent tæki sem svo sannarlega getur bjargað mannslífum, sjálfvirkt hjartahnoðtæki til að nota um borð í þyrlunum.

Tækið góða var afhent við hátíðlega athöfn í tengslum við sjómannadaginn í Hafnarfirði. Sigurður Steinar Ketilsson skipherra og Hreggviður Símonarson stýrimaður veittu því viðtöku fyrir hönd Landhelgisgæslunnar. Á meðal þeirra sem lögðu fram fé til kaupa á tækinu voru Kiwanisklúbburinn Eldborg og Bergþór Ingibergsson og fjölskylda hans en Bergþór var í áhöfn Barðans GK-475 sem strandaði undan Hólahólum á Snæfellsnesi við sérlega erfiðar aðstæður fyrir rétt rúmum þrjátíu árum. Skipbrotsmönnunum var bjargað um borð í þyrluna TF-SIF með giftusamlegum hætti en í áhöfn þyrlunnar þennan örlagaríka dag var einmitt Sigurður Steinar Ketilsson.


Frá afhendingu tækisins. Frá vinstri: Jón Halldór Bjarnason, forseti Kiwanisklúbbsins Eldborgar, Bergþór Ingibergsson, Sigurður Steinar Ketilsson skipherra, Sirivan Khongjamroen, eiginkona Bergþórs, og Hreggviður Símonarson stýrimaður. 

Hjartahnoðtækið, sem er af gerðinni Lucas, á eftir að hafa afar mikið að segja varðandi umönnun sjúklinga um borð í þyrlunum. Segja má að það leysi af hólmi einn mann um borð sem annars hefði þurft að sinna hjartahnoði. Getur hann þá sinnt öðrum brýnum verkefnum í tengslum við umönnun sjúklinga á meðan. Tækið veitir alltaf jafnt og gott hnoð og þreytist ekki, ólíkt mannshöndinni. Fyrir á Landhelgisgæslan annað svipað tæki en það var gjöf frá styrktarsjóði Kiwanisumdæmisins Ísland/Færeyjar og Kiwanisklúbbanna Elliða, Eldeyjar, Esju, Heklu og Dyngju og var afhent fyrir rúmu ári. Þar með verða tvær þyrlur LHG ávallt búnar slíkum tækjum.


Svona lítur Lúkas út

Bergþór Ingibergssyni og félögum í Kiwanisklúbbnum Eldborg eru færðar bestu þakkir fyrir sín rausnarlegu framlög, auk þeirra sem styrkt hafa þyrlukaupasjóð Landhelgisgæslunnar en sjóðurinn lagði einnig til fé til kaupanna á hjartahnoðtækinu. Enn og aftur sannast það hve velvilji almennings skiptir miklu máli þegar kemur að tækjakaupum hjá Landhelgisgæslunni.