LHG undirritar mikilvæga viljayfirlýsingu

Vinnueftirlitið stóð fyrir ráðstefnu á Grand Hótel um miðjan janúar undir yfirskriftinni „Áreitni á vinnustöðum – nei takk“. Fundurinn var haldinn til að vekja athygli á mikilvægi þess að efla forvarnir á sviði vinnuverndar með sérstaka áherslu á einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Fundurinn var fjölsóttur og komust færri að en vildu. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var frummælandi og Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra fór með lokaorð. Á meðal þeirra sem sóttu fundinn voru tveir fulltrúar Landhelgisgæslu Íslands.

Fundurinn endaði á því að allir fundargestir undirrituðu viljayfirlýsingu fyrir hönd síns vinnustaðar um aðgerðir gegn  gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Sóley Kaldal, sérfræðingur á aðgerðasviði og formaður jafnréttisnefndar LHG, ritaði undir yfirlýsinguna fyrir hönd Landhelgisgæslunnar.

Viiljayfirlysing-um-adgerdir-gegt-eineldi-etc.

Virðing fyrir fólki og trúmennska eru lykilatriði í mannauðsstefnu Landhelgisgæslunnar og markmið hennar kveða meðal annars á að samskipti á milli starfsfólks einkennist af virðingu og samvinnu. Starfsfólk Landhelgisgæslunnar starfar eftir siðareglum og stofnunin hefur sett sér stefnu í jafnréttismálum. Í jafnréttisáætlun  Landhelgisgæslunnar er sérstaklega kveðið á um að kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni eða kynferðisleg áreitni sé ekki liðin á vinnustaðnum heldur skuli allir starfsmenn koma fram af virðingu hver við annan óháð stöðu og kynferði. Þá er starfandi jafnréttisnefnd hjá Landhelgisgæslunni sem skipuð er fólki af báðum kynjum úr flestum deildum stofnunarinnar.