„Loðna bókstaflega um allan sjó“

Annir hjá stjórnstöð LHG og varðskipinu Tý

Á þeim tæpu þremur vikum sem eru liðnar frá því að loðnuvertíðin hófst hefur verið í nógu að snúast fyrir Landhelgisgæsluna. Vegna sjómannaverkfalls hafa þó erlend skip verið ein um hituna. Í morgun voru tuttugu skip á miðunum norður af landinu, sextán norsk og fjögur færeysk. Nú síðdegis hafði eitt norskt skip bæst í hópinn. Í höfnum Austanlands voru svo átta norsk skip, þar af eitt kolmunnaskip, og eitt skip var á leið til Vestmannaeyja til að landa þar.  

Veiðin hefur verið góð enda hafa stjórnvöld ákveðið að auka loðnukvótann verulega. Norsku skipin sem verið hafa að veiðum á Íslandsmiðum hafa tilkynnt um ríflega 45 þúsund tonna afla, færeysku skipin hafa veitt tæp fjögur þúsund tonn og grænlensku skipin rúmlega þúsund tonn. Skipstjóri á norsku skipi sagði í vikunni í samtali við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar að í þau fimmtán ár sem hann hefði verið á loðnuveiðum við Ísland hefði hann aldrei séð annað eins, það væri loðna bókstaflega um allan sjó.

Hjá stjórnstöðinni hefur verið nóg að gera við að sinna alls kyns umsýslu vegna skipanna, meðal annars að taka á móti þeim tilkynningum og leyfum sem þau þurfa að standa skil á og sjá til þess að það sé rétt og stundvíslega gert. Þá hefur stjórnstöðin tryggt að ekki séu fleiri en þrjátíu norsk skip á veiðum í einu, þegar fjöldinn hefur orðið meiri er umframskipunum sagt að bíða átekta á fyrirfram gefnum stað.


Léttabátur Týs kominn að loðnuskipi á miðunum. Mynd: Landhelgisgæslan.

Á veiðislóð hefur svo varðskipið Týr séð um að allt fari eftir lögum og reglum. Skipverjar á Tý hafa farið um borð í nokkur skip og mælt afla en líka gert athugasemdir þegar búnaður var ekki sem skyldi. Þannig hafa verið gerðar athugasemdir við notkun þjóðfána og tvívegis um flottroll á tromlu sem skipstjórum viðkomandi skipa var gert að leysa frá og setja í geymslu.

Þegar stund hefur verið á milli stríða hafa skipverjar á Tý svo notað tækifærið til æfinga og þjálfunar. Til dæmis hafa verið æfð notkun björgunartækja og viðbrögð við því þegar maður fellur fyrir borð. Þá fór bóklegt námskeið fyrir aðstoðarmenn kafara fram í skipinu á miðjum Þistilfirði. Loks hefur búnaður verið prófaður og yfirfarinn, til dæmis bruna- og lensidælur, rafstöðvar og utanborðsmótorar svo fátt eitt sé nefnt. Miklu skiptir að allur slíkur búnaður sé ávallt í lagi, verra er að uppgötva bilanir þegar helst ríður á að tækin séu til taks. 


Af loðnumiðunum. Mynd: Landhelgisgæslan.