Loðnuvertíðin hafin

Tvö norsk loðnuskip komin til veiða í íslensku lögsögunni

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst í gærkvöld tilkynning frá norska loðnuskipinu Fiskebas um að það væri komið inn í íslensku fiskveiðilögsöguna. Fiskebas er fyrsta erlenda skipið sem kemur hingað til loðnuveiða á yfirstandandi vertíð. Eitt hefur svo bæst við síðan þá, það er líka frá Noregi. Skipin eru að veiðum austur af landinu.

Upphaf þessarar loðnuvertíðar er nokkuð óvenjulegt þar sem engin íslensk uppsjávarskip eru á miðunum vegna verkfalls sjómanna. Erlendu skipin eru því ein um hituna, að minnsta kosti að sinni. Raunar má gera ráð fyrir að norsku loðnuskipin verði atkvæðamikil því Norðmenn mega veiða um sjötíu prósent heildarkvótans, rúm fjörutíu þúsund tonn af 57 þúsund.

Varðskipið Týr er nú á leið norður fyrir landið og er stefnan sett á loðnumiðin. Rétt eins og á fyrri loðnuvertíðum sinnir Landhelgisgæslan þar venjubundnu eftirliti og tryggir þannig að veiðarnar gangi vel og rétt fyrir sig.  

Myndin er úr safni Landhelgisgæslunnar og hana tók Jón Páll Ásgeirsson yfirstýrimaður.