Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins við Ísland að hefjast

Rúmlega 100 liðsmenn bandaríska flughersins taka þátt í verkefninu.

  • 201020-F-QP712-0535

2.7.2021 Kl:13:03

Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins við Ísland er að hefjast með komu flugsveitar bandaríska flughersins.

Rúmlega 100 liðsmenn bandaríska flughersins taka þátt í verkefninu ásamt starfsmönnum í stjórnstöðvum Atlantshafsbandalagsins í Uedem, Þýskalandi (Combined Air Operations Center) og á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Flugsveitin kemur til landsins eftir helgina með fjórar F-15 orrustuþotur og hefur aðsetur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

Með fyrirvara um veður, er gert ráð fyrir aðflugsæfingum að varaflugvöllum á Akureyri og Egilsstöðum á tímabilinu 7. til 14. júlí.

Framkvæmd verkefnisins verður með sama fyrirkomulagi og fyrri ár og í samræmi við loftrýmisgæsluáætlun Atlantshafsbandalagsins fyrir Ísland.

Eins og með annan erlendan liðsafla sem hér á landi dvelur tímabundið þá er í gildi viðbúnaður vegna sóttvarna meðan á dvöl bandarísku flugsveitarinnar stendur og er framkvæmdin unnin í samvinnu við embætti landlæknis og aðra er að sóttvörnum koma hér á landi.

Landhelgisgæsla Íslands annast í umboði utanríkisráðuneytisins framkvæmd verkefnisins í samvinnu við Isavia. Ráðgert er að loftrýmisgæslunni ljúki í lok júlí.