Mikil áhersla á umhverfismál

Innleiðingu Grænna skrefa lokið

  • DSC00633

23.6.2022 Kl: 10:33

Mikil áhersla hefur verið lögð á umhverfismál innan Landhelgisgæslu Íslands á undanförnum árum. Einn liður í þeirri vegferð var uppsetning veglegra rafhleðslustöðva á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

 
Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, vígði hleðslustöðvarnar á dögunum. Með tilkomu rafhleðslustöðvanna stórbatna möguleikar starfsmanna til að hlaða bíla sína. Þá bæta stöðvarnar möguleika gesta sem sækja varnasvæðið heim, til lengri eða skemmri tíma, að hlaða bílaleigubíla á svæðinu enda eru gestir hvattir til þess að nýta sér vistvæna ferðamáta ef nokkur kostur er.


Fyrr á árinu luku starfsmenn stofnunarinnar innleiðingu aðgerða vegna Grænna skrefa í ríkisrekstri en um fimm skref er að ræða og felur hvert þeirra í sér á bilinu 20-40 aðgerðir. Verkefninu er ætlað að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi ríkisins. Innleiðingin hefur gengið afar vel og starfsfólk lagt ýmislegt á sig til að ná settu marki. Ekki er ofsögum sagt að umhverfismeðvitund og áhugi á málaflokknum hefur stóraukist enda umhverfismál gjarnan uppspretta fjörugra umræðna þegar starfsmenn stinga saman nefjum.

 
Mikill árangur hefur náðst í sorpflokkun og fræðslu, stofnunin hefur sett sér loftslagsstefnu sem inniheldur markmið og aðgerðaáætlun sem styður við að að þeim markmiðum sé náð. Ár hvert skilar stofnunin grænu bókhaldi, til Umhverfisstofnunar auk þess að framkvæma umhverfisuppgjör í samvinnu við hugbúnaðarfyrirtækið Klappir Grænar Lausnir.

 
Við erum afar stolt af starfsfólkinu okkar og þeim árangri sem við höfum náð. Grænu skrefin fimm marka upphaf þessarar vinnu og Landhelgisgæslan hlakkar til að læra meira, efla andann og vinna áfram í haginn fyrir framtíð lands og sjávar.
DSC00612Plokkað á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. 
IMG_Skogarhlid_14-graenskref_1Grænum skrefum fagnað. 
DSC00633Georg stingur í samband.