Mikill viðbúnaður Landhelgisgæslu vegna flutningaskips í vanda

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst neyðarkall frá erlendu flutningaskipi á sjöunda tímanum í gærmorgun

  • Stjornstod-LHG_1600695887473

2.3.2022 Kl: 11:25

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst neyðarkall frá erlendu flutningaskipi á sjöunda tímanum í gærmorgun sem var á leið frá Sandgerði til Evrópu en töluverður leki var kominn að skipinu. Skipið var miðja vegu á milli Íslands og Færeyja og var óttast að skipið væri hugsanlega að sökkva. 

Þegar í stað var varðskipið Þór, tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar og áhöfnin á TF-SIF kölluð út sem og varðskip og björgunarþyrlur frá Færeyjum en skipið var innan leitar- og björgunarsvæðis Færeyja á hafinu. 

Betur fór en á horfðist og tókst áhöfn flutningaskipsins að sigla því til hafnar í Fuglafirði. Viðbragð Landhelgisgæslunnar og færeyskra viðbragðsaðila var þá afturkallað.