Mikill viðbúnaður vegna elds í fiskibát

TF-LIF, TF-SIF, varðskipið Týr og björgunarsveitir kallaðar út

15.4.2019 klukkan: 18:55

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst tilkynning klukkan 17:51 um eld um borð í fiskibátnum Æsi sem staddur var tíu sjómílur vestur af Flatey á Breiðafirði. Þrír voru um borð. TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar, var þegar í stað kölluð út sem og TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar, sem var í löggæsluverkefni þegar útkallið barst. Að auki var varðskipið Týr beðið um að halda á vettvang sem og sjóbjörgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Snæfellsnesi.

Flugvélin var komin yfir bátinn klukkan 18:09 en þá voru mennirnir þrír komnir í flotgalla. Enginn reykur var þá sjáanlegur en hiti greinanlegur með hitamyndavél flugvélarinnar. 

Fiskibáturinn Hafey, sem upphaflega var í níu sjómílna fjarlægð, kom fyrstur að að bátnum og voru skipverjarnir þrír óhultir. Áhöfnin á Hafey  tók Æsi í tog og dregur hann nú áleiðis til Brjánslækjar. 

Björgunarskipinu Björgu frá Rifi hefur verið snúið við sem og varðskipinu Tý og þyrlunni Líf. 

Björgunarbáturinn Guðfinna frá Stykkishólmi fylgir bátunum inn til Brjánslækjar í öryggisskyni.