Mikill viðbúnaður vegna neyðarboða frá íslenskri flugvél

Um klukkan hálffimm í dag tók stjórnstöð Landhelgisgæslunnar að berast neyðarboð frá íslenskri flugvél yfir landinu. Haft var samband við Flugstjórnarmiðstöð sem upplýsti að viðkomandi flugvél væri á flugi yfir Íslandi og áætlaði lendingu í Skagafirði um tveimur og hálfum tíma síðar. Ekki náðist í flugmann vélarinnar sem var einn um borð en neyðarboð bárust áfram. Þá var talsvert af flugvélum á flugi yfir Íslandi sem tilkynntu að þær heyrðu í neyðarsendi.

Þá þegar kallaði stjórnstöð Landhelgisgæslunnar út TF-SYN, þyrlu Landhelgisgæslunnar sem og áhöfnina á TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar. Einnig voru björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar, bæði norðanlands og sunnanlands kallaðar út auk þess sem samhæfingarstöðin í Skógarhlíð var virkjuð til samræmis við neyðaráætlun flugslysa.

Þyrla Landhelgisgæslunnar fór í loftið stuttu eftir að neyðarboðið barst en fljótlega eftir að þyrlan fór í loftið, eða um korter yfir fimm náðist í flugmann flugvélarinnar í gegnum farsíma. Reyndist þá flugvélin vera á flugi í Skagafirði og allt í góðu lagi. Var þá þyrlu Landhelgisgæslunnar snúið við og allar bjargir afturkallaðar.