Nemendur Eskifjarðarskóla heimsækja varðskipið Þór

Fyrir skemmstu var varðskipið Þór statt á Eskifirði og notaði áhöfnin tækifærið og bauð nemendum og kennurum frá Eskifjarðarskóla í heimsókn um borð. Alls mættu 44 nemendur og kennarar skólans og skoðaði hópurinn varðskipið og kynnti sér starfsemina. Þótti bæði ungum sem öldnum mikið til koma og hinar ýmsu spurningar er varða skip og áhöfn spruttu af vörum ungu nemendanna sem áhöfnin reyndi eftir bestu getu að svara. Mikill áhugi var hjá krökkunum og þótti áhöfn skipsins gaman að sýna svo fróðleiksfúsum og hressum krökkum varðskipið og búnað þess. Miðað við áhugann er ekki ólíklegt að þarna leynist allnokkrir framtíðarstarfsmenn Landhelgisgæslunnar.

Landhelgisgæslan þakkar nemendum og kennurum Eskifjarðarskóla kærlega fyrir komuna.


Nemendur Eskifjarðarskóla ganga um borð í varðskipið Þór.

Hópurinn galvaskur ásamt skipherra og áhafnarmeðlimum að lokinni fróðlegri og skemmtilegri heimsókn.