Neyðarsendi bjargað úr sjónum
TF-SYN sótti neyðarsendi sem fauk af norsku fiskiskipi. Gagnleg æfing fyrir áhöfnina.
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst aðfaranótt fimmtudagsins í síðustu viku ábending frá Björgunarmiðstöðinni í Noregi vegna merkis úr neyðarsendi frá norsku fiskiskipi sem var á veiðum á miðunum suðvestur af Reykjanesi. Stjórnstöðin kallaði skipið samstundis upp á neyðarrásinni 16 og fékk þau svör að allt væri í lagi um borð og ekkert amaði að áhöfninni. Skipverjar ákváðu samt að ganga úr skugga um að allt væri með felldu. Kom þá í ljós að neyðarbauja utan á brúnni hafði farið af skipinu, líklega vegna yfirstandandi storms.
Þegar líða tók á morguninn tóku fleiri tilkynningar að berast vegna neyðarsendisins, meðal annars frá flugvélum á leið yfir svæðið. Síðar um daginn var ákveðið að sækja sendinn, bæði til að hann ylli ekki frekari truflunum en ekki síður til að þyrluáhafnir Landhelgisgæslunnar öðluðust þjálfun í að miða slíka senda út ef raunveruleg hætta steðjaði að.
Æfingin var haldin rúmum sólarhring síðar en þyrlan TF-SYN fór í loftið á þriðja tímanum á föstudaginn. Haldið var fyrir Garðskaga þar sem fór fljótlega að heyrast í neyðarsendinum. Flogið var svo yfir hann 26,5 sjómílur vestur af Reykjanesi. Tekinn var hringur og flogið upp í vind í átt að sendinum í lágflugi með opna hurð uns áhöfnin kom auga á hann í sjónum. Sigmaður fór niður og sótti hann. Haldið var svo aftur til Reykjavíkur og lenti þyrlan aftur um fjögurleyti á Reykjavíkurflugvelli.
Áhöfnin var sammála um að æfingin hefði verið gagnleg og búnaðurinn um borð reynst vel. Þarna gafst kærkomið tækifæri til að æfa útmiðun neyðarsendis og björgun við sem raunverulegastar aðstæður.