Ný vitaskrá komin út
Gefin út af Landhelgisgæslu Íslands í samstarfi við Vegagerðina.
29.8.2019 Kl: 15:53
Vitaskrá 2019 er komin út. Hún er gefin út af Landhelgisgæslu Íslands í samstarfi við Vegagerðina sem ber ábyrgð á útgáfunni samkvæmt vitalögum. Það er í höndum starfsmanna sjómælinga- og siglingaöryggisdeildar LHG auk siglingasviðs Gæslunnar að halda utan um útgáfu vitaskrárinnar. Skráin er uppfærð árlega. Tilkynningar til sjófarenda sem Landhelgisgæslan gefur einnig út á um það bil tveggja mánaða fresti birta tilkynningar um breytingar á vitum og sjómerkjum og ýmislegt fleira er sjófarendur varðar. Útgáfa Tilkynninga til sjófarenda er sömuleiðis í höndum starfsmanna sjómælinga- og siglingaöryggisdeildar en þær má finna hér.
Í vitaskránni er að finna lista yfir vita með upplýsingum um staðsetningar þeirra, ljóseinkenni o.fl. Einnig eru upplýsingar um dufl, radarsvara og sjó- og leiðarmerki í vitaskránni.
Á vef Vegagerðarinnar eru upplýsingar um málefni siglinga en þeim málum sinnir siglingasvið stofnunarinnar. Þar kemur m.a. fram að vitakerfi landsins er tvískipt. Landsvitar sem leiðbeina á almennum siglingaleiðum eru í umsjá ríkisins en hafnarvitar sem vísa leið inn til hafnar eru í eigu og umsjá sveitarfélaga. Landsvitakerfið samanstendur af 104 ljósvitum, 11 siglingaduflum og 16 radarsvörum. Hafnarvitakerfið er byggt upp af tæplega 20 ljósvitum, um 90 innsiglingarljósum á garðsendum og bryggjum, rúmlega 80 leiðarljósalínum og tæplega 50 baujum er vísa leið í innsiglingum að höfnum. Hægt er að lesa nánar um hafnarvitakerfið hér.
Hægt er að nálgast vitaskrána á prenti í sjómannaalmanökunum sem gefin eru út á hér á landi. Þau birta skrána í heild sinni. Jafnframt eru sjávarfallatöflur fyrir Reykjavík, Ísafjörð, Siglufjörð, Djúpavog og Þorlákshöfn birtar í þeim. Sjómannaalmanökin tvö sem gefin eru út eru Skipaskrá & sjómannaalmanak gefið út af Árakló slf. og Íslenska sjómannaalmanakið sem Myllusetur ehf. gefur út.
Sem dæmi um breytingar sem tilkynntar voru í Tilkynningum til sjófarenda og eru nú komnar í nýja útgáfu vitaskrárinnar eru þær breytingar að vitinn í Sjómannaskólanum lagður niður í júní s.l. og ný viti við Sæbraut tekinn í notkun. Þessum breytingum voru gerð skil í Tilkynningum til sjófarenda sem gefnar voru út 7. júní s.l.
Breytingarnar hafa nú verið teknar inn í nýja útgáfu Vitaskrárinnar. Sjókort hafa einnig verið uppfærð en Landhelgisgæslan hefur með höndum sjómælingar og sjókortagerð fyrir Ísland.
Áður fyrr var skráin prentuð en nú í um áratug hefur vitaskráin eingöngu verið gefin út á rafrænu formi. Pdf útgáfu er hægt að sækja á vef Landhelgisgæslu Íslands. Slóð beint á Vitaskrána má finna hér.
Vitinn við Sæbraut. Mynd: Vegagerðin.
Úr vitaskrá. Vitinn við Sæbraut.