Ólafur Þór Thorlacius – Minning

16. ágúst, 2024

Ólafur Þór Thorlacius f.v. deildarstjóri hjá sjómælingasviði Landhelgisgæslu Íslands lést 27. júlí síðastliðinn.

16.8.2024 Kl: 9:40

Ólafur Þór Thorlacius f.v. deildarstjóri hjá sjómælingasviði Landhelgisgæslu Íslands lést 27. júlí síðastliðinn. Ólafur var fæddur í Reykjavík 21.10. 1936 og ólst þar upp. Hann fór 15 ára fyrst til sjós. Það varð þó ekki ævistarf hans heldur sjókortagerð, sem óneitanlega tengist sjómennsku.Ólafur Thorlacius, eða Óli Toll eins og hann var kallaður, var einn af frumherjunum sem tókust á við það verkefni að koma á fót íslenskri sjókortagerð þegar Danir, sem séð höfðu um sjókortagerðina, afhentu Íslendingum verkefnið á sjötta áratug síðustu aldar.Haustið 1953 fór Ólafur á námssamning í kortagerð hjá Landhelgisgæslunni og var síðasta ár þess náms hjá Det kongeli Sökort Arkiv í Kaupmannahöfn. Hann lauk þar prófi 1958. Annar Íslendingurinn sem lauk slíku prófi frá stofnuninni. Að námi loknu starfaði Ólafur við sjómælingar og sjókortagerð á vegum Landhelgisgæslunnar allt þar til hann lét af störfum um aldamótin.Árið var yfirleitt tvískipt hjá Óla hvað vinnu varðaði. Á sumrin var hann við mælingar á varðskipum og sjómælingabátum. Yfir veturinn var unnið úr gögnum og ýmist ný sjókort teiknuð eða þau eldri leiðrétt og uppfærð. Hann undi þessu fyrirkomulagi vel. Var einatt farinn að iða í skinninu þegar sumar nálgaðist. Kom svo endurnærður á kontórinn þegar haustaði.Ólafi var margt til lista lagt. Hann var drátthagur og lagði stund á myndlist. Settist fyrst 12 ára á skólabekk í myndlistarskóla í Reykjavík. Sótti síðar fjölda myndlistarnámskeiða, hélt myndlistarsýningar og kenndi myndmennt um skeið.Ólafur var íþróttamaður á yngri árum. Lék handbolta með FH og varð margsinnis Íslandsmeistari með liðinu. Hann lék einnig körfubolta. Lengst með Val. Þar lék hann fjölda meistarflokksleikja. Hann varð þjálfari körfuboltadeildar Vals. Hann lék með fyrsta landsliði Íslands í körfubolta og var þjálfari landsliðins um skeið.Íslensk sjókortagerð á Óla Toll þakkir að gjalda. Hálf öld, tæp, við teikniborðið er ekki lítið. Hann lærði til verka þegar kortagerð var hreint handverk. Allt handteiknað, línur, tákn og letur. Þá kom sér vel að vera leikinn með penna og geta teiknað. Kortagerðarmenn hans kynslóðar voru listamenn öðrum þræði. Hann sá tækniframfarir smám saman koma til sögunnar. Í efnum og áhöldum sem notuð voru. Í prentmyndagerð og prentun. Og fleiru og fleiru. Þegar hann kvaddi þann vettvang sem orðinn var ævistarf hans hafði tölvutækni rutt sér til rúms á flestum sviðum. Ný kynslóð tilbúin að taka við keflinu. Gerast frumherjar með tölvur að vopni. Ekki svo ólíkt í eðli sínu og þegar Óli Toll með teiknipennann að vopni tók þátt í að koma íslenskri sjókortagerð á laggirnar á sjötta áratug síðustu aldar. Landhelgisgæsla Íslands þakkar og kveður mætan mann.

ÁÞV

Oli-Toll-a-kontornum-a-SeljaveginumÓli Toll á kontórnum á Seljaveginum. 

K420_Flatey_1959_summ-a-eyna

Dæmi um handbragð liðins tíma, sjókort teiknað 1959.