Öldungaráðið í heimsókn
Fyrrverandi starfsmenn LHG kynntu sér starfsemina í höfuðstöðvunum í Skógarhlíð
Góðir gestir komu í Skógarhlíðina í morgun. Þar voru á ferð tuttugu félagar í Öldungaráði Landhelgisgæslunnar, félagi fyrrverandi starfsmanna LHG. Þeir byrjuðu á að heimsækja stjórnstöðina þar sem þeir sátu meðal annars á reglubundinn stöðufund og fræddust um starfsemina í stöðinni. Þaðan héldu þeir á sjómælingasviðið og fengu þar kynningu á helstu verkefnum sjómælingabátsins Baldurs og nýmælum á sviði sjókortagerðar.
Að því búnu fóru þessir síungu öldungar í kaffi í bækistöðvum sprengjueyðingar- og séraðgerðasveitarinnar Landhelgisgæslunnar og skoðuðu búnaðinn þar. Að því búnu hlýddu þeir á fyrirlestra þeirra Auðuns Kristinssonar og Sóleyjar Kaldal, sem starfa á aðgerðasviði LHG, um verkefni Landhelgisgæslunnar í nútíð og framtíð.
Georg Kr. Lárusson forstjóri hafði á orði í ávarpi sínu í lok heimsóknarinnar að nú hefðu meðlimir Öldungaráðsins hlotið nauðsynlega endurmenntun til að geta hafið störf á ný hjá Landhelgisgæslunni. Hópurinn snæddi svo hádegisverð í mötuneytinu í Skógarhlíð. Við þökkum þessum velunnurum okkar og góðu félögum kærlega fyrir komuna.