Óvænt og viðburðarík Íslandsheimsókn flutningaskips

kipið lagði 700 sjómílna lykkju á leið sína til að komast suðvesturhorni landsins.

  • 20201026_164300_resized

28.10.2020 Kl: 16:12

Glöggir vegfarendur á sunnanverðu Snæfellsnesi og sjófarendur í norðanverðum Faxaflóa gætu hafa orðið varir við stærðarinnar flutningaskip undan Kirkjuhól í vikunni. Skipið er engin smásmíði, ríflega 40.000 tonn, 225 metrar að lengd og ristir fjórtán og hálfan metra. Þegar skipið var á siglingu frá Kanada til Íslands barst Landhelgisgæslunni beiðni frá skipstjóra þess í gegnum umboðsaðila að það fengi heimild til að koma að suðvesturhorni landsins vegna nauðsynlegs viðhalds. Gera þurfti við stimpil í vél þess.

Eins og alþjóðlegar samþykktir gera ráð fyrir veitti Landhelgisgæslan, í samráði við Faxaflóahafnir og fleiri aðila, skipinu heimild til að koma inn í Faxaflóa og leiðbeindi því til akkerislegu undan Kirkjuhól á Snæfellsnesi. Skipið lagði 700 sjómílna lykkju á leið sína til að komast þangað. Ekki reyndist unnt að taka skipið að bryggju vegna djúpristu þess og miðað við veðurspár var talið hagkvæmast að skipið lægi undan Snæfellsnesi. Veðurspá gerði ráð fyrir norðaustanáttum. Meðan viðgerð fór fram var skipið vélarvana um hríð en eftir að henni var lokið fór skipstjórinn fram á að bíða í hálfan annan sólarhring vegna lægðagangs í Norður-Atlantshafi.

Þegar skipið var við akkeri barst Landhelgisgæslunni aftur beiðni frá skipinu, nú vegna skipverja sem slasast hafði á hendi. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út síðdegis á mánudag til að sækja manninn. Skipið hafði þá sent Gæslunni heilsufarsyfirlýsingu og vel var hugað að sóttvörnum í sjúkraflutningnum.

Þessari óvæntu og viðburðaríku Íslandsheimsókn skipsins lauk eftir hádegi í dag þegar skipið létti akkerum og hélt áleiðis í Norðursjó.

20201026_164303_resizedFlutningaskipið Nordic Oasis við Íslandsstrendur í vikunni.

NO-LEIDSkipið létti akkerum í dag og hélt í átt að Norðursjó.