Ráðherra bandaríska flughersins heimsækir Landhelgisgæsluna

Deborah Lee James ráðherra bandaríska flughersins heimsótti Landhelgisgæsluna nú í vikunni og kynnti sér starfsemi hennar, sér í lagi í tengslum við varnartengd verkefni. Ráðherrann kom ásamt fylgdarliði og Heidi H. Grant, vararáðherra flughersins í alþjóðamálum. Hópurinn lenti á Keflavíkurflugvelli þriðjudaginn 19. júlí og notaði daginn til að funda á Öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli með fulltrúum Landhelgisgæslu Íslands, utanríkisráðuneytisins og bandaríska sendiráðsins hér á landi þar sem farið var yfir framkvæmd varnartengdra verkefna og varnarsamstarfið sem byggir á varnarsamningnum.   

Ráðherrann og fylgdarlið fór frá Íslandi miðvikudaginn 20. júlí en áður hafði ráðherrann aftur viðdvöl hjá Landhelgisgæslunni og skoðaði ratsjár- og fjarskiptastöðina á Miðnesheiði sem er mikilvægur hlekkur í samþættu loftrýmiseftirlit NATO ásamt ratsjárstöðvunum á Bolafjalli, Gunnólfsvíkurfjalli og Stokksnesi. Þá heimsótti ráðherrann stjórnstöð NATO og Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli.

Samanber samning milli utanríkisráðherra og innanríkisráðherra annast Landhelgisgæsla íslands framkvæmd tiltekinna varnartengdra verkefna samanber varnarmálalög nr. 34/2008. Meðal varnarverkefna sem Landhelgisgæslan ber ábyrgð á er rekstur íslenska loftvarnakerfisins, rekstur fjarskipta- og ratsjárstöðva, þátttaka í samræmdu loftrýmiseftirliti og loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins, umsjón og hagnýting öryggissvæða og mannvirkja, undirbúningur og umsjón varnaræfinga sem haldnar eru hérlendis, framkvæmd gistiríkisstuðnings og verkefni er varða framkvæmd varnarsamningsins og samstaf innan NATO.

 
Hópurinn ásamt fulltrúa Landhelgisgæslunnar, Jóni B. Guðnasyni yfirmanni verkefna Landhelgisgæslunnar á Öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.
 

Frá vinstri; Robert C. Barber sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Deborah Lee James ráðherra bandaríska flughersins og Jón B. Guðnason yfirmaður starfsemi Landhelgisgæslunnar á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.