Ranglega skráðar AIS-netabaujur
Númerið á baujunum verður að vera úr réttri númeraseríu
Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands hafa að undanförnu orðið varir við AIS-netabaujur á miðunum sem ekki eru rétt skráðar. Baujurnar senda frá sér radíómerki í AIS-kerfinu. Til að virka og trufla ekki aðra starfsemi þurfa þær að standast viðurkennda staðla og vera auðkenndar með réttum hætti.
Útgerð sem notar slíkar baujur þarf að fá úthlutað sérstöku MMSI-númeri frá Póst- og Fjarskiptastofnun, eitt númer fyrir hverja bauju. Þessi númer eru í númeraseríu, skilgreindri af Alþjóðafjarskiptastofnuninni, International Telecommunication Union ITU, sem sérstaklega er ætluð fyrir tæki sem AIS-netabaujur. Fyrstu fimm tölurnar í þessari skilgreindu númeraseríu AIS-bauja eiga að vera 99251.
Ef baujur eru skráðar tilviljanakennt í kerfið án viðeigandi auðkenningarnúmers til hliðsjónar er hætta á að þær fari í númerseríur sem ætlaðar eru fyrir leitar- og björgunartæki eins og „maður fyrir borð – bauju“ (MOB), radarsvara (SART) eða annan slíkan búnað. Það getur haft áhrif á leitar- og björgunaraðgerðir, valdið truflunum og jafnvel orðið til þess að viðbragðsaðilar séu kallaðir út að óþörfu.
Stjórnstöðin hefur því bent sjófarendum sem ekki eru með þessi mál í lagi að gera strax bragarbót á og hafa flestir orðið við þeim tilmælum án tafar.