Reykköfun á Ísafirði
Varðskipið Þór var á Ísafirði í vikunni og við það tilefni var ákveðið að halda reykköfunaræfingu um borð í rækjutogaranum Ísborgu II sem lá við bryggju í bænum
6.12.2018 Kl: 15:18
Varðskipið Þór var á Ísafirði í vikunni og við það tilefni var ákveðið að halda reykköfunaræfingu um borð í rækjutogaranum Ísborgu II sem lá við bryggju í bænum. Reykvél var komið fyrir á millidekki togarans og þeir sem tóku þátt í æfingunni fengu upplýsingar um að skipið væri vélarvana og eins væri saknað. Áhöfn varðskipsins fór sjóleiðina að togaranum í léttbát og var allur búnaður tekinn um borð með handafli. Þar að auki voru dælur keyrðar og þrjú teymi reykkafara send til leitar um borð í skipinu. Æfingin gekk afar vel og fannst „maðurinn“ fljótlega á millidekki togarans. Landhelgisgæslan þakkar eiganda útgerðarinnar innilega fyrir samstarfið enda mikilvægt fyrir áhafnir varðskipanna að fá tækifæri til æfinga um borð í hinum ýmsu fiskiskipum til að vera eins vel undirbúnar og kostur er þegar mest á reynir.
Áhöfnin á Þór að störfum.
Léttbáturinn kemur að togaranum.
Æfingin gekk afar vel.