Rühle aðmíráll heimsótti Landhelgisgæsluna
Í heimsókninni kynnti hann sér meðal annars starfsemi öryggissvæðisins á Keflavíkurflugvelli, varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins og landhelgihluta Landhelgisgæslu Íslands.
1.7.2024 Kl: 08:35
Aðalstarfsmannastjóri (e. Chief of Staff) í herstjórnarmiðstöð Atlantshafsbandalagsins í Evrópu, þýski aðmírálinn Joachim Rühle, heimsótti Ísland í upphafi júnímánaðar. Rühle var hér á landi í boði utanríkisráðuneytisins, m.a. til að ræða gistiríkjastuðning íslenskra stjórnvalda gagnvart flugsveitum og skipaflota Atlantshafsbandalagsins ásamt því að kynna sér varnartengda innviði, tækjabúnað og mannauð sem er til staðar á Íslandi.
Í heimsókninni kynnti hann sér meðal annars starfsemi öryggissvæðisins á Keflavíkurflugvelli, varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins og landhelgihluta Landhelgisgæslu Íslands.
Að loknum vel heppnuðum og upplýsandi fundi í utanríkisráðuneytinu með skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu heimsótti Rühle öryggissvæðið í Keflavík. Þar fékk hann kynningu á verkefnum stjórnstöðvar, P-8 flugsveitar kafbátaleitarflugvéla, F-15 flugsveitar sem stödd var við loftrýmisgæslu á Íslandi í júní og aðstöðu séraðgerða- og sprengjueyðingarsveitar Landhelgisgæslunnar sem þjónustar m.a. flugsveitir sem annast loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins hér á landi.
Seinni daginn var Rühle kynnt eftirlits- leitar og björgunargeta Landhelgisgæslunnar og hvernig slík verkefni eru unnin í nánu og góðu samstarfi við bæði innlenda aðila sem og nágrannaþjóðirnar.
Aðmírálinn sat stöðufund í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í Reykjavík, kynnti sér starfsemi siglingaöryggis- og sjómælingadeildar sem og aðstöðu séraðgerða- og sprengjueyðingardeildar í björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð. Að því loknu fékk hann kynningu á flugdeild Landhelgisgæslunnar og að lokum fór hann um borð í varðskipið Þór sem statt var í árlegu vitaverkefni ásamt starfsmönnum Vegagerðarinnar í innanverðum Faxaflóa.
Þess má að lokum geta að þegar aðmírállinn var ungt sjóliðsforingjaefni í liðsforingjaskóla þýska sjóhersins, var Reykjavík viðkomustaður í hans fyrstu sjóferð sumarið 1979 og kom fram hjá honum að hann ætti góðar minningar frá þeim tíma.
Bjarni Ágúst Sigurðsson og Höskuldur Ólafsson taka á móti Rühle á Reykjavíkurflugvelli.
Ásgrímur L. Ásgrímsson tók á móti aðmírálnum og sýndi honum m.a starfsemi Landhelgisgæslu Íslands.
Rühle kynnti sér starfsemi séraðgerðasveitar Landhelgisgæslunnar.
Einnig var P-8 flugsveit heimsótt.
Varðskipið Þór.