Rúm sjötíu hlöss af útbúnaði flutt úr Surtsey

Viðamiklu rannsóknarverkefni í eynni er lokið en LHG sá um flutning á búnaði

Varðskipið Þór og þyrlan TF-LIF fluttu í vikunni útbúnað, vistir, úrgang og fleira úr Surtsey. Þar með var endi bundinn á alþjóðlegt vísindaverkefni sem hófst í eynni í sumar.

Í júlílok var búnaðurinn og annar varningur sem notaður var í tengslum við SUSTAIN-borverkefnið fluttur í Surtsey með varðskipinu Þór. Um er að ræða stærsta rannsóknaverkefni í eynni frá því að hún varð til í eldgosi á árunum 1963-1967 og umfangið á útbúnaðinum endurspeglaði það. Sökum þess hve lending báta er erfið í eynni var þyrla Landhelgisgæslunnar notuð til að færa farminn þangað yfir úr varðskipinu.TF-LIF flytur útbúnað úr Surtsey yfir í Þór. Myndir: Gassi

Borunum lauk fyrir skemmstu og um helgina var hafist handa við að koma búnaði og öðru sem tengist verkefninu úr eynni. Þetta var gert með því að „slinga“ farminum eins og það er kallað. Þá eru hlössin ferjuð eitt af öðru með því festa þau við taug sem hangir neðan úr þyrlunni. Þetta er vandasamt verk sem krefst mikillar nákvæmni og því reynir talsvert bæði á flugstjóra þyrlunnar og spilmanninn. Ýmis spilliefni, svo sem olía, voru í sumum hlössunum og því varð að gæta sérstakrar varúðar enda er Surstey friðlýst og á heimsminjaskrá UNESCO.

LHG_Gassi_Surtsey-155
Mynd: Gassi

Fyrstu hlössin voru ferjuð á milli skips og eyjar á sunnudag. Starfsmenn borverkefnisins sáu um að festa trossurnar við taugina, þyrlan flaug svo yfir í Þór sem lónaði skammt suðaustan við eyna. Vegna óhagstæðrar vindáttar var ekki unnt nema að flytja hluta af útbúnaðinum yfir og því var verkinu haldið áfram á mánudag og svo klárað á þriðjudagsmorgun. Þegar yfir lauk hafði þyrlan flutt ríflega sjötíu hlöss úr eynni yfir í Þór. Skipverjar á Þór sáu um að raða útbúnaðinum vel og vandlega og var lyftari fluttur um borð til að það gengi sem best fyrir sig. Myndir: Gassi

Starfsfólk vísindaverkefnisins og Umhverfisstofnunar gekk svo þannig frá svæðinu að fátt benti til að svo umfangsmikil starfsemi hefði verið þar vikum saman. Náttúruöflin munu að öllum líkindum sjá um að afmá verksummerkin endanlega.

LHG_Gassi_Surtsey-391

LHG_Gassi_Surtsey-321

LHG_Gassi_Surtsey-325

Efst: Einar Ingi Reynisson stýrimaður og Sigurður Steinar Ketilsson skipherra á Þór. Í miðið: Stund á milli stríða hjá Hrannari Sigurðssyni spilmanni. Neðst: Hrannar og Sigurður Ásgeirsson flugstjóri fjarlægja hurðina flugstjóramegin svo Sigurður sjái betur til. Myndir: Gassi.