Samæfing björgunaraðila og útgerða skemmtiferðaskipa

Farþegaskip með 300 farþega innanborðs verður fyrir því að eldur kemur upp í vélarrúmi skipsins er það nálgast strendur Jan Mayen.

Er skipið rekur nær landi rekst það á klett og sjór tekur að flæða inn í skipið. Skipið strandar í kjölfarið og hætta er á að það leggist á hliðina. Björgunarbát með 150 manns innanborðs hvolfir er hann rekur að ströndinni með þeim afleiðingum að fimm manneskjur týnast og aðrar fimm slasast.  

Sem betur fer er þetta aðeins sviðsmynd stórrar sameiginlegrar skrifborðsæfingar sem 56 fulltrúar björgunaraðila og útgerða sem starfa á Norðurslóðum stóðu fyrir og haldin var í Reykjavík dagana 6. og 7 apríl sl. Eftir sem áður er ljóst að ef slíkur atburður myndi henda í raunveruleikanum eru viðbragðsaðilar betur undir það búnir að bregðast við eftir æfingar sem þessa.

Tilgangur æfingarinnar, sem skipulögð var af Landhelgisgæslunni, AECO sem eru samtök útgerðaraðila rannsóknarfarþegaskipa á Norðurslóðum og norsku útgerðarinnar Hurtigruten, var að styrkja samstarf, þekkingu og upplýsingamiðlun þeirra aðila sem þátt tóku með áherslu á björgun farþega af farþegaskipum á Norðurslóðum.

Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytisins ávarpaði þátttakendur í upphafi æfingarinnar þar sem hún lagði áherslu á mikilvægi samstarfs og öflugs björgunarliðs.

Æfingin gekk afar vel og leiddi til aukins samstarfs og betri skilnings á getu og takmörkunum útgerða og björgunaraðila á Norðurslóðum. Jafnframt kom fram hve mikilvægt er að útgerðaraðilar farþegaskipa og björgunaraðilar á Norðurslóðum standi fyrir reglubundnum sameiginlegum æfingum.

Á æfingunni voru meðal annars tekin fyrir atriði sem lúta að skipulagi og staðsetningu björgunareininga, björgunaráætlunum, gagnagrunnum, hlutverki og skyldum einstakra aðila, lærdóm sem draga má af raunverulegum atvikum og æfingum og viðbrögðum á landi í tengslum við slys af þessari stærðargráðu.

Í æfingunni tóku þátt auk Landhelgisgæslunnar, fulltrúar kanadísku strandgæslunnar, kanadíska flughersins, finnsku strandgæslunnar, norsku strandgæslunnar, bandarísku strandgæslunnar, Ríkislögreglustjóra, Slysavarnafélagsins Landsbjargar, dönsku herstjórnarinnar á Grænlandi ásamt fulltrúum AECO og útgerða farþegaskipa sem stunda siglingar á Norðurslóðum. Voru þátttakendur allir afar ánægðir með æfinguna og er fyrirhugað að halda fleiri slíkar síðar.

 
Hópurinn sem þátt tók í æfingunni.