Samkomulag undirritað um hafnarþjónustu fyrir varðskip á Sauðárkróki

Landhelgisgæslan og sveitarfélagið Skagafjörður undirrituðu í dag samkomulag um hafnarþjónustu fyrir varðskip Landhelgisgæslunnar á Sauðárkróki. Samkomulagið tryggir Landhelgisgæslunni alla nauðsynlega þjónustu fyrir varðskip stofnunarinnar á Sauðárkróki um lengri eða skemmri tíma, þ.m.t. hafnaraðstöðu, aðgang að heitu og köldu vatni, aðgang að rafmagni og losun á sorpi.

Landhelgisgæslan leitast við að hafa varðskip statt fyrir Norðurlandi þegar aðstæður krefjast og er mikilvægt að tryggja aðgengi að hafnaraðstöðu á svæðinu. Með samkomulaginu er stuðlað að öflugra almannavarna- og öryggisstarfi á hafi norðan við Ísland.


Georg Kristinn Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar og Stefán Vagn Stefánsson fulltrúi sveitarfélagsins takast í hendur að lokinni undirritun. Bak við þá standa þeir Auðunn Friðrik Kristinsson verkefnastjóri á aðgerðasviði og Ásgrímur L. Ásgrímsson framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar.