Samstarf þjálfunardeilda Icelandair og Landhelgisgæslu Íslands
Þjálfun áhafna skipar mikilvægan sess hjá flugrekendum.
25.9.2024 Kl: 6:55
Icelandair og Landhelgisgæsla Íslands hafa skrifað undir samning um samstarf í þjálfunarmálum. Þótt flugrekstur þessara aðila sé í eðli sínu ólíkur eru fjölmargir sameiginlegir snertifletir sem snúa að reglubundinni þjálfun áhafna þar sem öryggi er ávallt í fyrsta sæti. Þjálfun áhafna skipar mikilvægan sess hjá flugrekendum og er því afar dýrmætt að hafa sameiginlegan vettvang til þess að skiptast á skoðunum og hugmyndum um hvernig sú þjálfun getur skilað sem mestri þekkingu í eins fjölbreyttu umhverfi og flug er.
„Starfsmenn flugdeildar Landhelgisgæslunnar eru í heild um 70 talsins. Við erum með eina sérútbúna Dash 8 300 flugvél og 3 Airbus H –225 þyrlur í rekstri. Starfsemin er afar fjölbreytt og krefjandi en jafnframt erum við frekar smár flugrekstraraðili þar sem margt fellur á fáar hendur. Það er því afar ánægjulegt og mikilvægt fyrir okkur að fá aðgang að gríðarlega viðtækri og sérhæfði þekkingu sem starfsfólk Icelandair býr að. Vonandi getur Icelandair svo nýtt þá sérhæfðu þekkingu sem safnast hefur innan okkar raða í gegnum árin í bæði sambærilegu og svo mjög ólíku starfsumhverfi“ segir Björn Brekkan Björnsson, ábyrgðarmaður þjálfunarmála hjá Landhelgisgæslu Íslands.
Guðmundur Tómas Sigurðsson, ábyrgðarmaður þjálfunarmála hjá Icelandair tekur í sama streng.
„Þjálfunardeildir Icelandair og Gæslunnar hafa átt í samstarfi um nokkurt skeið en það er ákaflega ánægjulegt að ganga frá því með formlegum hætti í dag. Þó svo flugrekstur okkar sé ólíkur þá lítum við á Landhelgisgæsluna sem einn okkar helsta samstarfsaðila þegar upp koma atvik sem geta varðað öryggi í okkar flugrekstri. Það er til mikil og sérhæfð þekking innan okkar deilda sem nú er hægt að deila með formlegri hætti til þess að bæta hæfni starfsmanna hjá báðum flugrekendum“ segir Guðmundur Tómas.