Samstarfssamningur endurnýjaður milli Landhelgisgæslunnar og Joint Arctic Command

Forstjóri Landhelgisgæslunnar, Georg Kristinn Lárusson og Major-General Kim Jörgensen, yfirmaður Joint Arctic Command (sem stendur fyrir starfsemi danska sjóhersins og lofthersins á Grænlandi og Færeyjum) skrifuðu í gær undir endurnýjaðan samstarfssamning um leit og björgun, sameiginlegt eftirlit og öryggismál á hafsvæðinu milli Færeyja, Íslands og Grænlands. Undirritunin fór fram um borð í danska varðskipinu Einar Michaelssen þar sem skipið var við eftirlits- og björgunarstörf vestur af Grænlandi. Samningur um þetta samstarf var fyrst undirritaður árið 1996 en vegna margskonar þróunar og breytinga hefur nýr samningur og verklagsreglur honum tengdar verið i endurskoðun s.l. tvö ár.

Árlegur samráðsfundur Landhelgisgæslunnar og Joint Arctic Command samkvæmt samningnum fór fram í Grænlandi í vikunni og var nýr samningur undirritaður við það tækifæri. Samkvæmt samningnum hittast forstjóri Landhelgisgæslunnar og yfirmaður Joint Arctic Command árlega, til skiptis á Íslandi og Grænlandi og fara yfir samstarfið á liðnu ári og leggja drög að því næsta.

Umrætt samstarf er með þeim rótgrónari á þessu sviði á Norðurslóðum og hefur oft verið nefnt sem einn af hornsteinum leitar og björgunar og öryggismála á Norður-Heimskautssvæðinu. Dönsku eftirlits- og varðskipin hafa reglulega viðkomu í íslenskum höfnum og danskar eftirlits- og björgunarflugvélar hafa einnig viðkomu á Keflavíkurflugvelli. Landhelgisgæslan æfir reglulega með þessum skipum og loftförum og daglega eiga sér stað mikil upplýsingaskipti milli stjórnstöðva Landhelgisgæslunnar í Reykjavík og Keflavík annars vegar og stjórnstöðvar Arctic Command í Nuuk á Grænlandi sem einnig rekur útibú í Þórshöfn í Færeyjum.

 
Major-General Kim Jörgensen undirritar samninginn fyrir hönd Joint Arctic Command.
 
Georg Kristinn Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar og Major-General Kim Jörgensen takast í hendur að lokinni undirritun samstarfssamningsins.
 
Um borð í danska varðskipinu Einar Michaelssen þar sem undirritun fór fram en skipið var við eftirlits- og björgunarstörf vestur af Grænlandi.