Séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar eyddi tundurdufli.
25.10.2022 Kl: 15:39
Um hádegisbil í gær hafði skipstjóri íslensks togskips samband við
stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og tilkynnti að djúpsprengja hefði komið í
veiðarfæri skipsins. Séraðgerða- og sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar
var þegar í stað kölluð út og hélt áleiðis til Siglufjarðar en skipið var á
siglingu norður af landinu og áætlaði að landa í bænum. Séraðgerðasveitin var
komin á Siglufjörð í gærkvöld og hélt strax til móts við skipið á slöngubát. Á
öðrum tímanum í nótt var sveitin komin um borð í skipið og hífði djúpsprengjuna
sem reyndist vera tundurdufl í bátinn og fór með það í land.
Um hádegisbil í dag var farið með tundurduflið út á Siglunes þar sem því
var eytt. Um var að ræða breskt tundurdufl frá seinni heimsstyrjöldinni og enn
þann dag í dag kemur það reglulega fyrir að um áttatíu ára gömul vígtól komi í
veiðarfæri íslenskra fiskiskipa. Landhelgisgæslan þarf reglulega að eyða slíkum
sprengjum sem geta reynst stórhættulegar, sérstaklega í ljósi aldurs þeirra og
hugsanlegrar tæringar.
Sjaldan er ein báran stök því slökkviliðsstjórinn á Siglufirði hafði einnig
samband við séraðgerðasveitina sem var stödd í bænum vegna tundurduflsins og
tjáði sprengjusérfræðingunum að í morgun hafi hann fengið vitneskju um
áratugagamlar hvellhettur fyrir dínamít sem nauðsynlegt væri að eyða.
Sveitin brást hratt og vel við beiðni slökkviliðsstjórans og
eyddi hvellhettunum örugglega. Dagurinn á Siglufirði var því nokkuð
annasamur fyrir sprengjusérfræðingana.
Meðfylgjandi myndir sýna tundurduflinu eytt en myndbandið er tekið í um 300
metra fjarlægð.
Séraðgerðasveit fór á slöngubáti til móts við togskipið.
Tundurduflið um borð í togskipinu.
Um borð í skipinu.
Hvellhettunum eytt.