Séraðgerðasveit kemur að þjálfun úkraínskra hermanna

Utanríkisráðuneytið í samstarfi við sérfræðinga séraðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar hafa annast undirbúning og framkvæmd verkefnisins

  • EOD_1679396326312

21.3.2023 Kl: 10:47

Þjálfun úkraínskra hermanna á sviði sprengjuleitar og sprengjueyðingar hófst í Litáen í vikunni. Um er að ræða samstarfsverkefni Norðurlandanna og Litáen og annast litáískir, norskir, sænskir og íslenskir sprengjusérfræðingar framkvæmdina.

Markmið verkefnisins er að gera úkraínska hernum betur kleift að finna og eyða ósprungnum sprengjum í Úkraínu í kjölfar innrásar Rússlands en talið er að ósprungnar sprengjur af ýmsu tagi fyrirfinnist á allt að fimmtungi úkraínsks landssvæðis Þjálfunin eru liður í því að styrkja varnarsveitir Úkraínu og draga úr hættu á því að íbúar landisins verði fyrir skaða.

„Eftir að hafa séð með eigin augum eyðilegginguna og hörmungarnar sem sprengjuárásir Rússa hafa valdið almenningi í Úkraínu er ég stolt að því að við getum lagt okkar af mörkum á sviði sem Ísland hefur sérþekkingu á í samstarfi við okkar nánustu samstarfsríki,“ segir Þórdís Kolbrún Gylfadóttir utanríkisráðherra en hún kynnti verkefnatillögu um þetta málefni á ráðstefnu um stuðning við öryggi og varnir Úkraínu í Kaupmannahöfn í fyrrasumar.

Utanríkisráðuneytið í samstarfi við sérfræðinga séraðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar hafa annast undirbúning og framkvæmd verkefnisins en þeir hafa á undanförnum árum sinnt verkefnum á vegum Atlantshafsbandalagsins á sviði þjálfunar sprengjusérfræðinga, meðal annars í Írak og Jórdaníu.

Hver kennslulota stendur yfir í fimm vikur og stefnt að því að ljúka í það minnsta fjórum lotum á þessu ári.

Frétt af vef stjórnarráðsins