Sérfræðingar strandgæslustofnana á norðurslóðum hittust á Húsavík

4. nóvember, 2019

Fyrsti viðburðurinn sem haldinn hér á landi eftir að Landhelgisgæslan tók við formennsku í Arctic Coast Guard Forum.

4.11.2019 Kl: 15:38

Sérfræðingar strandgæslustofnana á norðurslóðum hittust á
Húsavík fyrir helgi til að bera saman bækur sínar og fjalla um brýn mál
sem við koma leit- og björgun auk mengunareftirlits á norðurslóðum. Þetta var
fyrsti viðburðurinn sem haldinn er hér á landi eftir að Landhelgisgæslan tók
við formennsku í Arctic Coast Guard Forum, samtökum strandgæslustofnana á
norðurslóðum.

Á fundinum var farið yfir niðurstöðu síðustu æfingar sem
haldin var í Finnlandi í apríl. Mikill lærdómur var dreginn af æfingunni og
sameiginleg viðbragðsáætlun stofnanna uppfærð með hliðsjón af honum. Slík
áætlun hefur verið í þróun frá því samtökin voru stofnuð árið 2015 en hún hefur
ávallt verið uppfærð með tilliti til nýjustu æfinga og reynslu hverju sinni.

Þá er hafinn er undirbúningur fyrir svokallaða skrifborðsæfingu
sem haldin verður á Íslandi í lok mars 2020 þar sem leit- og björgun verður í
brennidepli. Að auki verður áhersla lögð á viðbrögð við mengunarslysi en fram
til þessa hafa samtökin eingöngu beint sjónum sínum að leit- og björgun á
svæðinu en afar brýnt er að umhverfisvernd fái aukið vægi á þessum samráðsvettvangi.

Einnig voru línur lagðar fyrir stóra æfingu sem haldin á
Íslandi vorið 2021 og er ætlunin að tengja saman leitar- og björgunaræfingu
samráðsvettvangsins og mengunarvarnaæfingu sem áætluð er hér á landi á sama
tíma.

Fundur sem þessi er liður í því að að dýpka samstarf þeirra
stofnana sem fara með strandgæslumál í norðurslóðaríkjunum átta: Bandaríkjunum,
Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Kanada, Noregi, Rússlandi og Svíþjóð.

Ef slys eða óhöpp verða á hafsvæði norðurslóða geta margir
dagar liðið áður en hjálp berst. Slík óhöpp geta áhrif á mörg ríki, svo ekki sé
minnst á viðkvæm vistkerfi norðlægra breiddargráða. Samvinna skiptir því sköpum
til að tryggja öryggi fólks og vernda umhverfið. ACGF er mikilvægur vettvangur
fyrir alþjóðlega samvinnu og samhæfingu með það að markmiði að auka
siglingaöryggi og umhverfisvernd á norðurslóðum.