Sigurður Steinar látinn

Sigurður Steinar Ketilsson, fyrrverandi skipherra, er látinn.

  • Sigurdur-Steinar2

29.10.2019 Kl: 14:47

Sigurður Steinar Ketilsson, fyrrverandi skipherra, er látinn, 71 árs að aldri. Hann lést á Landspítalanum 27. október.

Sigurður Steinar hóf störf hjá Landhelgisgæslunni sem háseti á varðbátnum Maríu Júlíu þann 13. apríl 1968. Ferilinn var glæsilegur og spannaði hálfa öld.

Störf Sigurðar Steinars einkenndust alla tíð af óeigingirni, umhyggju og þrautseigju. Hann setti mark sitt á leitar- og björgunarstörf í landinu og það var ómetanlegt fyrir Landhelgisgæsluna og þjóðina alla að eiga slíkan mann að.

Hann barðist fyrir tilvist og uppbyggingu þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar og átti stóran þátt í að björgunarþyrlan TF-SIF var keypt til landsins á níunda áratugnum.

Þá var hann var þátttakandi í tveimur þorskastríðum og átti þátt í mörgum af fræknustu björgunarafrekum Landhelgisgæslunnar. Sigurður Steinar var til að mynda í áhöfninni á TF-SIF sem bjargaði níu skipverjum Barðans við gríðarlega erfiðar aðstæður árið 1987. Sú björgun markaði þáttaskil fyrir þyrlusveit Landhelgisgæslunnar.

Sigurður Steinar var skipherra á varðskipum Landhelgisgæslunnar í þrjá áratugi. Hann beitti sér fyrir því að þjóðin eignaðist nýtt varðskip og það var vel við hæfi að hann kæmi sjálfur heim til Íslands með varðskipið Þór frá Síle í október 2011. Á Þór starfaði hann sem skipherra frá 2011-2018.

Þá var Sigurður Steinar sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag til landhelgisgæslu og björgunarstarfa í júní 2018.

Hann lauk störfum fyrir Landhelgisgæsluna og íslensku þjóðina þegar hann stýrði varðskipinu Þór til hafnar í síðasta skipti að þann 13. apríl 2018, nákvæmlega fimmtíu árum frá fyrstu ferðinni með Maríu Júlíu.

Nú hefur þessi einstaki skipherra lagt upp í sína síðustu ferð. Landhelgisgæslan vottar ástvinum Sigurðar Steinars innilega samúð.

Sigurdur-SteinarSigurður Steinar Ketilsson, um borð í varðskipinu Þór. Ljósmynd: Gassi.

Sigurdur-SteinarSigurður Steinar og Georg Kr. Lárusson þann 13. apríl 2018. Ljósmynd: Árni Sæberg. 

SSK_bokLögskráning Sigurðar frá 13. apríl 1968.

Sigurður Steinar Ketilsson.

1-vs-Maria-Julia-TFLB--likl.-um-1958Varðbáturinn María Júlía.Vardskipid-thor_1572361650895Varðskipið Þór kemur til landsins árið 2011.SSK