Sjávarfallatöflur 2023 og Sjávarfallaalmanaki 2023 komin út

Út eru komin ritin Sjávarfallatöflur 2023 ásamt Sjávarfallaalmanaki 2023. Landhelgisgæslan, áður Sjómælingar Íslands, hafa gefið út töflur yfir sjávarföll í tæp 70 ár.

  • Sjavarfallatoflur-2023

8.12.2022 Kl: 10:22

Út eru komin ritin Sjávarfallatöflur 2023 ásamt Sjávarfallaalmanaki 2023. Landhelgisgæslan, áður Sjómælingar Íslands, hafa gefið út töflur yfir sjávarföll í tæp 70 ár. Töflur yfir sjávarföll í Reykjavík og flóðbið annarra staða við Ísland gáfu Sjómælingar Íslands fyrst út árið 1954. Útreikningur taflnanna byggðist á athugun sem gerð var af starfsmönnum Sjómælinganna á sjávarföllum í Reykjavíkurhöfn allt árið 1951.

Auk töflunnar fyrir Reykjavík eru töflur fyrir Ísafjörð, Siglufjörð, Djúpavog og Þorlákshöfn.

Sjávarfallaalmanakið sýnir útreiknaða hækkun og lækkun sjávar í Reykjavík fyrir hvern dag ársins. Breyting sjávarfallabylgjunnar frá degi til dags og hlutfallsleg stærð hennar við stórstraum og smástraum kemur greinilega fram á línuritinu.

Hverjum sólarhring er deilt niður í tveggja klukkustunda bil og er sjávarhæðin sýnd í metrum miðað við núllflöt sjókorta. Með hjálp línuritsins má því áætla sjávarstöðuna á hverjum tíma. Sé þörf á meiri nákvæmni er vísað til töflu yfir sjávarföll við Ísland, en í þeirri töflu er tími og hæð flóðs og fjöru gefinn upp nákvæmlega.

Stórstreymt er einum til tveim dögum eftir að tungl er nýtt eða fullt en smástreymt einum til tveim dögum eftir fyrsta og síðasta kvartil.

Í almanakinu er sýnt hvenær kvartilaskipti tungls verða.