Sjómannadagurinn 2021

Starfsmenn tóku þátt í hátíðarhöldum víða um land. Sigur í kappróðri.

  • Kapprodur

6.6.2021 Kl: 19:05

Starfsfólk Landhelgisgæslunnar tók þátt í hátíðarhöldum vegna sjómannadagsins víða um land. Áhöfnin á varðskipinu Þór var stödd í Vestmannaeyjum þar sem hún var viðstödd afhjúpun minnisvarðar um strand belgíska togarans Pelagus í janúar árið 1982 þar sem fjórir fórust. Áhöfnin á Þór tók einnig þátt í kappróðri í Eyjum og gerði sér lítið fyrir og bar sigur úr býtum. 

Í Reykjavík stóðu starfsmenn Landhelgisgæslunnar heiðursvörð í minningarathöfn Sjómannadagsráðs sem fram fór við minnismerkið Minningaröldurnar við Fossvogskapellu. Blómsveigur var jafnframt lagður að merkinu og þyrla Landhelgisgæslunnar flaug lágflug yfir kirkjugarðinn að athöfn lokinni.

 Því næst var haldið í guðsþjónustu í Dómkirkjunni í Reykjavík. Þyrlusveitin flaug yfir Reykjanes, Snæfellsnes og endaði á að sýna hífingar í höfninni á Eyrarbakka. Þá sótti áhöfn sjómælingabátsins Baldurs guðsþjónustu í Bolungarvík í tilefni dagsins. Til hamingju með daginn sjómenn!

Sjomannadagur-2021.jpg1Starfsmenn Landhelgisgæslunnar að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni.

Ahofn-BaldursÁhöfn sjómælingabátsins Baldurs var í Bolungarvík.

KapprodurÁhöfnin á varðskipinu Þór sigraði í kappróðri. 

1404391564_20210606_111231_5128110_resized_1Blómsveigur var lagður að minnismerkinu um strand belgíska togarans Pelagus.