Sjúkraflug í suðaustanstormi

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst um hálftólfleytið þann 11. janúar beiðni frá Neyðarlínu um aðstoð þyrlu vegna sjúklings sem þurfti að komast á sjúkrahús í Reykjavík. Sökum hvassviðris gat sjúkraflugvél ekki flogið þangað.

TF-LIF fór í loftið frá Reykjavíkurflugvelli klukkan 12:20 og var haldið þangað í lágum hæðum um Þrengsli og svo með suðurströnd landsins. Þyrlan kom til Vestmannaeyja um eittleytið var þá veðrið þar orðið mjög vont og aðflugið krefjandi. Af þeim sökum lenti þyrlan við vesturenda flugbrautarinnar þangað sem sjúkrabíll kom með sjúklinginn. TF-LIF fór aftur í loftið klukkan 13:18 og lenti svo á Reykjavíkurvíkurflugvelli hálftíma síðar. Sjúklingurinn var svo fluttur á Landspítalann með sjúkrabíl.

Eins og áður segir gekk suðaustanstormur yfir landið. Til marks um veðurofsann meðan á útkalli þyrlunnar stóð má nefna að flughraði þyrlunnar í mótvindinum á leiðinni til Eyja var 88 hnútar (162 km/klst) en í meðvindinum á bakaleiðinni fór hann upp í allt að 190 hnúta (352 km/klst). Heimferðin tók því talsvert skemmri tíma en flugið til Eyja. Bálhvasst var í Eyjum þegar TF-LIF var þar. Vindmælir þyrlunnar mældi hviður sem slógu í 35 metra á sekúndu, sem er fárviðrisstyrkur.

Deginum áður sótti TF-LIF veikan sjómann um borð í íslenskt fiskiskip á Deildargrunni, norðvestur af landinu. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst beiðni um aðstoð þyrlu laust fyrir klukkan tvö og fór hún í loftið um hálfþrjúleytið. Á meðan fluginu stóð sigldi skipið í átt að landi. Rúmum klukkutíma eftir flugtak kom þyrlan að skipinu. Sigmaður og læknir fóru um borð og undirbjuggu sjúklinginn fyrir hífingu og flug. Þyrlan lenti svo á Reykjavíkurflugvelli laust fyrir klukkan hálfsex og og flutti sjúkrabíll manninn svo á bráðamóttöku Landspítalans.