Slasaður sjómaður sóttur til Eyja
Vegna veðurs var ekki hægt að senda þangað sjúkraflugvél
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst laust fyrir klukkan tvö í nótt beiðni frá Neyðarlínu um aðstoð þyrlu vegna sjómanns sem slasaðist um borð í fiskiskipi undan suðurströnd landsins.
Skipið hafði siglt til Vestmannaeyja þar sem læknir á staðnum, í samráði við þyrlulækni Landhelgisgæslunnar, komst að þeirri niðurstöðu að rétt væri að flytja manninn til Reykjavíkur. Vegna veðurs var ekki hægt að senda sjúkraflugvél til Eyja og því sótti þyrlan TF-LIF þann slasaða.
Þyrlan fór í loftið frá Reykjavíkurflugvelli upp úr klukkan hálfþrjú og lenti á flugvellinum í Vestmannaeyjum um fjörutíu mínútum síðar. Þar var stormur, mikil úrkoma og skýjahæðin aðeins um 500 fet. Eftir að sjúklingurinn hafði verið búinn undir flutning lagði TF-LIF aftur af stað til Reykjavíkur um hálffjögurleytið. Þyrlan lenti svo á Reykjavíkurflugvelli klukkan 04:21 þar sem sjúkrabíll beið og flutti manninn á sjúkrahús.