Smábátur strandaði skammt innan við Arnarstapa

Lögregla flutti skipverjann á sjúkrastofnun í Ólafsvík en hann hruflaðist við strandið.

  • IMG_0574-2-

6.6.2023 Kl: 10:54

Smábátur strandaði skammt innan við Arnarstapa á tíunda tímanum í gærkvöld. Einn var um borð í bátnum. Hann hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og taldi ekki yfirvofandi hættu á ferðum en hæglætisveður var á svæðinu þegar báturinn strandaði.

Varðskipið Freyja sem var í grenndinni var kallað út ásamt björgunarskipi Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Rifi. Einnig óskaði Landhelgisgæslan eftir því að lögregla og björgunarsveitir færu landleiðina á staðinn. Lögregla flutti skipverjann á sjúkrastofnun í Ólafsvík en hann hruflaðist við strandið.

Björgunarsveitir undirbjuggu aðgerðir á strandstað í nótt. Þegar féll að bátnum komst sjór í lest bátsins og því þarf að dæla sjó úr lestinni áður en báturinn verður dreginn af strandstað. Gert er ráð fyrir að áhöfn varðskipsins Freyju taki bátinn í tog í kvöld.

Mynd: Guðmundur St. Valdimarsson

IMG_0574-3-Frá strandstað.