Sólstöðuköfun í Hvalfirði

Lokahnykkurinn í köfunarnámskeiði um borð í varðskipinu Tý

Fjórir starfsmenn Landhelgisgæslunnar luku í gær sameiginlegu köfunarnámskeiði Landhelgisgæslunnar, Ríkislögreglustjóra og Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Þeir köfuðu niður á fimmtíu metra dýpi á botn Hvalfjarðar. 

Aðstæður voru eins og best var á kosið í Hvalfirðinum á vetrarsólstöðum í gær, sléttur sjór og bjart veður eftir snjókomu næturinnar. Varðskipið Týr lá fyrir akkerum á miðjum firði, en námskeiðið fór fram um borð undir styrkri handleiðslu starfsmanna séraðgerða- og sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar.

Þessi lokaþáttur námskeiðsins fólst í fimmtíu metra djúpsjávarköfun. Kafararnir voru einn í einu látnir síga í körfu niður á sex metra dýpi. Þaðan lásu þeir sig niður eftir línu niður á fimmtíu metra dýpi þar sem þeir voru í örstutta stund. Svo fikruðu þeir sig hægt og rólega aftur upp á yfirborðið með nokkurra mínútna stoppi á sex og þriggja metra dýpi. Það er gert til að koma í veg fyrir köfunarveiki.

Fimmtíu metra djúpsjávarköfun er ekki fyrir hvern sem er. Í djúpinu er niðamyrkur, lítið skyggni og ískalt, hitamælir kafaranna gaf til kynna fjögurra gráðu sjávarhita í Hvalfirðinum í gær. Þá er fimmfalt meiri þrýstingur á slíku dýpi en uppi á yfirborðinu. Atvinnukafarar þurfa stundum að vinna flókin verkefni við þessar erfiðu aðstæður, til dæmis í skipsflökum.

Það er skemmst frá því að segja að allt gekk að óskum og fjórmenningarnir stóðu sig allir sig einn með mikilli prýði. Sumir úr hópnum fundu reyndar til svokallaðrar djúpsjávargleði (e. nitrogen narcosis), sem er nokkurs konar ölvunarástand sem kafarar geta fundið þegar kafað er niður fyrir 20-30 metra. Engum varð meint af þessu, hins vegar var þeim sem fylgdust með í gegnum fjarskiptabúnað uppi á yfirborðinu óneitanlega skemmt.

Kafararnir fjórir heita Andri Rafn Helgason, háseti, Baldur Ragnars Guðjónsson, stýrimaður, Jón Marvin Pálsson, úr séraðgerða og sprengjueyðingarsveit og Sverrir Harðarson, einnig úr séraðgerða- og sprengjueyðingarsveit. Þar með eru þeir fullnuma. Andri, Baldur og Sverrir fengu skírteini sín í nóvember en þá var Jón Marvin fjarverandi erlendis vegna skyldustarfa. 

 
 Köfurunum var slakað niður í djúpið í körfu.

 
 Jónas Karl Þorvaldsson köfunarformaður fylgist með.
 
 Gula slangan flytur loft til kafarans en sú bláa tengir ljós og fjarskiptabúnað við skipið.

 
Körfunni slakað niður.