Sprengjueyðingaræfing í skemmtiferðaskipi

Landhelgisgæslan æfði sprengjueyðingu í norska farþegaskipinu Fram

Gestir og gangandi í miðborg Reykjavíkur ráku margir upp stór augu í vikunni þegar svartklæddir menn sigu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar niður á þilfar norska farþegaskipsins Fram við Miðbakka í Reykjavíkurhöfn. Þarna var sem betur fer engin hætta á ferð heldur reglubundin æfing. 

Sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar hefur í gegnum tíðina æft með farþegaskipum sem hingað koma viðbrögð við ýmis konar vá. Í þessar æfingu var sett upp eftirfarandi sviðsmynd: Skipverji rekst á bakpoka við reglubundið eftirlit um borð. Þar sem honum finnst bakpokinn grunsamlegur ákveður hann að skoða hann nánar og sér þá víra og annað sem honum líst illa á. 


Sprengjusérfræðingar að störfum. Myndir: Sigurður Ásgrímsson.

Þar sem skipið var á siglingu á íslensku hafsvæði var haft samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar. Skipstjórinn gaf starfsmönnum hennar lýsingu á hvað hann teldi vera þarna á ferðinni og var honum þá gefið samband við vakthafandi sprengjusérfræðing. 

Þótt engin sprengjuhótun hefði borist var engu að síður ákveðið að taka þessu alvarlega. Þyrla flutti sprengjusérfræðing um borð ásamt tveimur aðstoðarmönnum og búnað. Gekk sú aðgerð mjög vel í alla staði og var sprengjan gerð óvirk.

Farþegaskip þurfa að halda slíkar æfingar reglulega og var því auðsótt að nota þetta tækifæri. Áhöfn og útgerð Fram fá bestu þakkir fyrir samvinnuna. 


12IMG_4195

Myndir: Sigurður Ásgrímsson