Sprengjueyðingarsveitin kölluð út

Torkennilegur hlutur fannst í fjörunni á Álftanesi en hann reyndist hættulaus

Sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út um helgina vegna torkennilegs hlutar sem fannst í fjörunni á Álftanesi. Hluturinn þótti líta út eins og jarðsprengja og því var talin ástæða til að hafa varann á. Sprengjusérfræðingar LHG fóru á staðinn ásamt lögreglu síðdegis á sunnudag og fyrsta verkefnið var að tryggja vettvanginn þannig að öryggi fólks í grenndinni væri tryggt. Þegar þarna var komið sögu var farið að flæða að og hluturinn kominn á kaf. Sprengjusérfræðingarnir húkkuðu því í hann og drógu á þurrt. Eftir skoðun sprengjusérfræðings þótti ljóst að engin hætta stafaði af þessum hlut og vettvangurinn væri því öruggur. Líklega hefur verið um járnstykki úr vinnupalli að ræða.


Þótt ekki hafi verið um sprengju að ræða sýnir þetta mál hve mikilvægt er að almenningur sé vakandi fyrir hlutum í umhverfinu og láti vita ef það hefur minnsta grun um að hætta geti stafað af þeim. Sprengjusérfræðingar geta þá skoðað málið nánar, gengið úr skugga um hvort svo sé og gripið til viðeigandi ráðstafana sé þeirra þörf. Hér sannast því hið sígilda máltæki: Allur er varinn góður.