Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar gera merkjablys óvirkt

Sprengjusveit Landhelgisgæslunnar gerði í morgun óvirkt merkjablys sem komið hafði í veiðarfæri fiskibátsins Friðriks Sigurðssonar ÁR-17. Hafði skipstjóri bátsins brugðist hárrétt við og gert sprengjusveit Landhelgisgæslunnar viðvart. Tóku því sprengjusveitarkappar Landhelgisgæslunnar á móti blysinu og var því eytt í söndunum fyrir austan Þorlákshöfn.

Skipið kom í morgun til Þorlákshafnar og fóru þá sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar um borð og rannsökuðu hlutinn. Það reyndist vera fosfórblys af gerðinni Mark 25. Slík blys eru notuð við leit og björgun og herir innan NATO nota þau einnig til að merkja svæði.

Miklu magni reyk- og ljósdufla eins og því sem hér um ræðir er varpað í sjó á hverju ári við björgunaraðgerðir en mest þó við æfingar. Þau eru í sjálfu sér ekki hættuleg en geta orðið það við vissar aðstæður. Við brunann myndast í mörgum tilfellum hvítur fosfór sem tendrast sjálfkrafa við að komast í snertingu við súrefni andrúmsloftsins. Því er hættulegt að taka slík dufl og geyma. Ef duflin eru geymd þar sem þau ná að þorna, kemur að því fyrr eða síðar að það kviknar í þeim og um leið myndast frá þeim hættulegur reykur. Blysin gefa frá sér reyk og birtu sem hægt er að greina í allt að fimm km fjarlægð. Blysið sem hér um ræðir er eitt af þeim stærstu sinnar tegundar og inniheldur bæði sprengiefni og fosfór. Fosfór er rokgjarnt efni sem brennur þegar það kemst í snertingu við andrúmsloft. Það veldur skærum loga sem getur orðið allt að þrír metrar að lengd og af honum kemur hvítur reykur sem er mjög eitraður. 

Jafnvel þótt slík blys virki eins og ætlast er til verða ávallt eftir leifar af óbrunnum fosfór sem getur kviknað í hvenær sem er, sérstaklega ef hann nær að þorna. Þess vegna ráðlagði sprengjusveit Landhelgisgæslunnar skipverjum á Friðrik Sigurðssyni að geyma blysið úti á dekki á einangruðum og öruggum stað þar til sprengjusérfræðingar kæmu að fjarlægja það. Sprengjusérfræðingarnir fjarlægðu blysið og eyddu því. Blysið hafði ekki virkað sem skyldi en í því voru sprungur sem ollu því að fosfórinn lak út og það sökk.

Talsvert magn þessara dufla finnst hér við land á hverju ári. Tilkynna skal um slíkt til Landhelgisgæslunnar eða næstu lögreglustöðvar.

 
Skipverjar fiskibátsins brugðust hárrétt við er blysið kom í veiðarfærin.
 
Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar eyddu blysinu í söndunum fyrir austan Þorlákshöfn.