Sprengjusveitin á ferð og flugi

TF-LIF flutti sveitina í verkefni á Breiðafirði og Bláfelli

Veðrið hefur leikið við landsmenn undanfarna daga og því hefur gefið vel til ýmissa útiverka. Verkefnin sem sprengjueyðingar- og séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar fæst við eru næsta óhefðbundin, mörg þeirra eru jafnvel hættuleg og krefjast stáltauga.

Á dögunum barst Landhelgisgæslunni ábending um að í Svefneyjum á Breiðafirði hefði fundist torkennilegur hlutur sem ástæða væri til að ætla að hætta stafaði af. Út frá lýsingum þess sem hafði samband ályktuðu félagar í sprengjueyðingarsveitinni að um hvellhettu væri að ræða en þær geta sprungið af minnsta tilefni og valdið miklu tjóni og alvarlegum slysum. Á sumrin dvelur fólk í Svefneyjum, börn þar á meðal, og því var ákveðið að fara á vettvang og gera hlutinn skaðlausan.


Sigurður Ásgrímsson, yfirmaður sveitarinnar, og Jónas Þorvaldsson sprengjusérfræðingur í Svefneyjum.

Þyrlan Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, flutti sprengjusérfræðinga í Svefneyjar á þriðjudaginn. Eftir dálitla leit fannst hvellhettan og var henni eytt á öruggan hátt. Á meðan sprengjusérfræðingarnir voru í Svefneyjum nýtti áhöfnin á TF-LIF tækifærið og aðstoðaði bóndann í Skáleyjum, sem eru þar skammt frá, við að líta til með sauðfé sem þar er á veturna. Eftir velheppnaða sprengjueyðingu og fjárrekstur var svo aftur haldið í bæinn.


Rollurnar í Skáleyjum vissu ekki hvaðan á þær stóð veðrið þegar þyrla Landhelgisgæslunnar birtist. 

Í gær fór TF-LIF svo í annan leiðangur, meðal annars til æfinga og til að sækja þyrlueldsneyti sem geymt var í Hrauneyjum og orðið tímabært að nota. Í leiðinni var komið við á Bláfelli á sunnanverðum Kjalvegi. Gaddfreðin klakabrynja hafði hlaðist utan á loftnet öryggisfjarskiptabúnaðar sem björgunarsveitir og aðrir viðbragðsaðilar á svæðinu reiða sig á. 

Ekki hafði reynst unnt að hreinsa ísinn af möstrunum með hefðbundnum aðferðum og því átti að reyna að sprengja hann í burtu. Ef til vill dugði nærvera sprengjusérfræðinga til að kuldaboli sleppti hrammi sínum af möstrunum því ekki reyndist þörf á að nota sprengiefni til að losa ísinn.


Möstrin eftir að klakabrynjan hafði verið brotin niður.

Þáttagerðarmenn frá Landanum á RÚV fóru með í þessar tvær ferðir. Afraksturinn verður sýndur í þættinum á sunnudagskvöldið og hvetjum við auðvitað alla til að fylgjast með.