Strandveiðar hófust í morgun

Landhelgisgæslan minnir á að óheimilt er að hefja sjóferð nema að gilt haffærisskírteini sé um borð og áhöfn sé lögskráð.

  • Image00004_1714647605924

2.5.2024 Kl: 10:20

Mikið hefur verið um að vera í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í morgun, á fyrsta degi strandveiðanna. Klukkan tíu voru á níunda hundrað skip og bátar í fjareftirliti hjá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar.

Landhelgisgæslan áréttar að allir bátar sem fara til strandveiða þurfa að tilkynna Landhelgisgæslunni brottför til hafnar á VHF rás 9 eða með smáforritinu VSS. Þá er einnig skilyrði að haffæri séu í gildi en óheimilt er að hefja sjóferð nema að gilt haffærisskírteini sé um borð og áhöfn sé lögskráð.

Þá minnir Landhelgisgæslan einnig á að á sjó er skylduhlustvarsla á VHF rás 16. Rásin er neyðar- og uppkallsrás og því mikilvægt að sjófarendur viðhafi hlustun á rásina allan tímann sem skip er á sjó. Þannig geta önnur skip og bátar, sem og stjórnstöð LHG náð sambandi um borð sé þess þörf. Slíkt er sérlega mikilvægt ef slys verður því næstu skip eru mögulega fyrst til björgunar. Sé talstöð stillt á vinnurás skal nota svokallaða tvöfalda hlustun eða „dual watch“ til að talstöðin fylgist einnig með rás 16.

IMG_6542Áhöfnin á varðskipinu Þór annast eftirlit á miðunum um þessar mundir.