Svaðilför í Surtsey með Ævar vísindamann

Verkefni Landhelgisgæslunnar geta verið fjölbreytt og hvert og eitt þeirra getur falið í sér að slá nokkrar flugur í einu höggi ef svo mætti segja. Eitt slíkt verkefni var nú fyrir skemmstu er þyrlusveit Landhelgisgæslunnar flaug út í Hjörleifshöfða með viðkomu í Surtsey. Tilgangur ferðarinnar var eftirlit með skipaumferð og fiskveiðum og að aðstoða björgunarsveitina Víkverja við að koma rafgeymum fyrir fjarskiptaendurvarpa upp á Hjörleifshöfða. Var ákveðið að kippa Ævari vísindamanni og tökuliði frá RÚV með í för og skutla þeim í Surtsey en Ævar og samstarfsfólk hans vinnur nú að gerð vísindaþáttar um Surtsey fyrir hina vinsælu, samnefndu sjónvarpsþáttaröð.

Er áhöfn þyrlunnar hafði lokið við að aðstoða björgunarsveitina var Ævar sóttur aftur í Surtsey og haldið heim á leið. Gekk allt að óskum og allir hressir og kátir með afrakstur dagsins. Nú er bara að bíða og sjá efnið frá Ævari vísindamanni um Svaðilförina í Surtsey.


Ævar vísindamaður með áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Frá vinstri: Ævar vísindamaður, Bergur Stefánsson læknir, Guðmundur Ragnar Magnússon stýrimaður/sigmaður, Sigurður Ásgeirsson flugstjóri, Andri Jóhannesson flugmaður og Helgi Rafnsson flugvirki/spilmaður