Takk fyrir traustið

 

Landhelgisgæslan nýtur mest trausts landsmanna en samkvæmt nýjum niðurstöðum Þjóðarpúls Gallup bera 92% landsmanna mikið traust til Landhelgisgæslunnar. Er það mesta traust sem hingað til hefur mælst til nokkurrar stofnunar í mælingum Gallup. Þetta er sjötta árið í röð sem Landhelgisgæslan mælist með mest traust íslenskra stofnana eða allt frá því að Landhelgisgæslan var tekin fyrst inn í mælingar Gallup. Hefur traust landsmanna til Landhelgisgæslunnar aukist um 11 prósentustig frá síðustu mælingum

Landhelgisgæslan er afar þakklát fyrir þetta mikla traust landsmanna. Markmið Landhelgisgæslunnar eru nú sem ávallt að tryggja sem best öryggi sjófarenda, fólksins í landinu og verndun auðlinda með sem bestum og hagkvæmustum hætti og með samheldnum og frábærum starfsmannahópi. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar eru til taks þegar á reynir og hver og einn sinnir störfum sínum af natni, umhyggju og fagmennsku. Þetta gerir Landhelgisgæsluna að því sem hún er og endurspeglar hið mikla traust sem landsmenn bera til Landhelgisgæslunnar, að þeir reiða sig á þennan öfluga hóp. Niðurstöður þessar eru Landhelgisgæslunni og starfsmönnum hennar enn frekari hvatning til áframhaldandi góðra verka og um leið áminning þess að trausti fylgir mikil ábyrgð sem gæta þarf að með hagsmuni þjóðarinnar í fyrirrúmi.
 
Landhelgisgæslan tók þátt í setningu Mottumars 2016. Mynd af þyrlu Landhelgisgæslunnar, tekin um borð í varðskipinu Þór. Mynd: Anton Brink.
 
 Varðskipið Þór á æfingu með björgunarþyrlu kanadíska flughersins í febrúar sl.
 
Áhöfnin á TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar við störf í Miðjarðarhafi.
 

Áhöfnin á varðskipinu Tý á 40 ára afmælisdegi skipsins í mars 2015.

Mynd af ratsjárstöðinni á Bolafjalli en ratsjárstöðvarnar í hverjum landsfjórðungi og stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í Keflavík eru mikilvægur hlekkur fyrir Landhelgisgæsluna til að hafa sem besta stöðumynd hverju sinni.

_MG_0659

Mynd úr stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í Reykjavík en segja má að stjórnstöðin sé hjartað í starfseminni en þaðan er aðgerðum stjórnað, fylgst með skipaumferð og fjareftirliti sinnt svo eitthvað sé nefnt.

Hásetar á varðskipinu Þór binda varðskipið að aftan er það kemur að bryggju eftir annasama löggæslu- og eftirlitsferð um miðin.


Mikið fjör og fjölmenni var í flugskýli Landhelgisgæslunnar á opnum degi í september 2015 en hátt á þriðja þúsund manns sótti Landhelgisgæsluna heim til að skoða tækjakost og hitta starfsmenn.

 

Þessi börn dönsuðu af gleði um borð í varðskipinu Tý og fögnuðu lífbjörginni en áhafnir varðskipa og flugvélar Landhelgisgæslunnar hafa við störf sín í Miðjarðarhafi komið að björgun ríflega 14.000 einstaklinga, þar af fjölda barna.

Þessa frábæru mynd tók Jón Páll Ásgeirsson stýrimaður. Þarna má sjá þyrluna TF-LIF við æfingu en það er engu líkara en sigmaður þyrlunnar renni sér fimlega niður Fríðarsúluna í Viðey. Hefur myndin því fengið heitið Friðarsúludans.
 
Þessir eldhressu krakkar af leikskólanum Sólborg heimsóttu Landhelgisgæsluna á síðasta ári en á ári hverju fær Landhelgisgæslan þúsundir gesta í heimsókn, þar á meðal fjölda krakka úr leikskólum og grunnskólum landsins og eru þær heimsóknir undantekningarlaust stórskemmtilegar enda krakkarnir einstaklega fróðleiksfúsir og áhugasamir um starfsemina.