TF-GNA kölluð til vegna slyss í Kirkjufjöru

Kona lést þegar hún féll í sjóinn nærri Dyrhólaey

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst laust fyrir klukkan eitt í dag beiðni frá Neyðarlínu um aðstoð þyrlu vegna konu sem fallið hafði í sjóinn í Kirkjufjöru við Dyrhólaey. 

Þyrlan TF-GNA var strax kölluð út á mesta forgangi. Hún fór í loftið klukkan 13.12 og var kominn á vettvang um fjörutíu mínútum síðar. Þá barst stjórnstöð ábending frá vettvangsstjóra um að þyrlan ætti að fara austur yfir Dyrhólaós og skoða betur vestasta hluta Reynisfjöru og brotin þar utan við því þar væri eitthvað að sjá. Skömmu síðar fann áhöfn TF-GNA konuna og var þá ákveðið að lenda þyrlunni í fjörunni. Þar var konan tekin um borð og hófust tilraunir til endurlífgunar þegar í stað. 

Þyrlan lenti svo við Landspítalann í Fossvogi klukkan 14.45. 

Undir kvöld var greint frá því að konan hefði farist í þessu hörmulega slysi. Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur. Hún var úrskurðuð látin við komuna til Reykjavíkur.