TF-GRO sótti veikan farþega skemmtiferðaskips

TF-GRO flaug 25 sjómílur suðaustur af Surtsey til móts við skipið.

  • IMG_1281

20.8.2019 Kl: 00:13

TF-GRO, þyrla Landhelgisgæslunnar, sótti í kvöld veikan farþega skemmtiferðaskips um 25 sjómílur suðaustur af Surtsey. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst beiðni frá áhöfn skipsins um að nauðsynlegt væri að koma farþeganum undir læknishendur í landi. TF-GRO tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli klukkan 20:31 í kvöld og var komin að skipinu um fimmtíu mínútum síðar. Sigmanni og lækni þyrlunnar var slakað um borð í skemmtiferðaskipið og var sjúklingurinn undirbúinn fyrir hífingu um borð í þyrluna. Eftir að hífingum var lokið var haldið á Landspítalann í Fossvogi.

Þetta var annað útkall þyrlusveitarinnar í dag en síðdegis áhöfn þyrlunnar kölluð út vegna bifhjólamanns sem slasaðist í Kerlingarfjöllum. TF-GRO fór frá Reykjavík á fjórða tímanum og lenti aftur á Reykjavíkurflugvelli klukkan 17 en þar beið sjúkrabíll eftir hinum slasaða.