TF-LIF í ísbjarnaleit
Landhelgisgæslunni barst í morgun beiðni frá lögreglunni á Blönduósi um að þyrla Landhelgisgæslunnar myndi kanna hvort sæist til ferða ísbjarna í kjölfar þess að ísbjörn kom að landi á Hvalnesi í gær.
Fór TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar í verkefnið og leitaði þyrlan frá Skagaströnd, norður fyrir Skaga og suður að Sauðárkróki. Engin ummerki sáust á svæðinu og var leit hætt um miðjan dag.