Áhöfnin á TF-LIF fann flugmanninn á toppi Skálafells og fluttu hann á Landspítalann í Fossvogi.
17.9.2019 Kl: 20:06
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst boð frá neyðarsendi flugvélar nálægt Móskarðshnjúkum laust fyrir klukkan þrjú í dag. TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar var þegar í stað kölluð út sem og slökkvilið, lögregla og björgunarsveitir. Jafnframt var þyrla frá þyrluþjónustu, sem var í grenndinni, beðin um að svipast um eftir vélin. Ekki náðist samband við vélina og eftir að tilkynning barst til neyðarlínu um reyk á svæðinu var viðbúnaðarstig hækkað. Klukkan 15:42 kom áhöfnin á TF-LIF auga á flugmanninn á toppi Skálafells. Hann kom sjálfur gangandi til áhafnar þyrlunnar sem flutti hann á Landspítalann í Fossvogi.
Á fimmta tímanum bárust skilaboð til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar þess efnis að viðbragðsaðilar á landi væru búnir að finna flak vélarinnar á Skálafellsöxl en þá logaði enn eldur í flakinu.
Því næst flaug TF-LIF á Tungubakkaflugvöll og sótti þangað fulltrúa frá Rannsóknarnefnd samgönguslysa, rannsóknarlögreglumenn og björgunarsveitarmann. Þeir voru fluttir að flaki vélarinnar.
Frá vettvangi á Skálafellsöxl.