TF-LIF sótti þrjá ferðamenn sem urðu innlyksa við Langavatn.
19.9.2019 Kl: 16:19
TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar, flutti þrjá ferðamenn sem urðu innlyksa við Langavatn til Reykjavíkur á fjórða tímanum í dag. Björgunarsveitir á Vesturlandi voru kallaðar út eftir hádegi en vegna aðstæðna gekk erfiðlega að komast til fólksins landleiðina. Lögreglan á Vesturlandi ákvað því að óska eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar á staðinn. TF-LIF tók á loft frá Reykjavík klukkan 14:44 og var lent við Langavatn rúmum tuttugu mínútum síðar. Þyrlan lenti með ferðamennina í Reykjavík laust fyrir klukkan fjögur.